137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

starfsemi banka og vátryggingafélaga.

19. mál
[14:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir svörin. Ég túlka þau þannig að þau sé í raun jákvæð við báðum þeim spurningum sem ég bar fram við hæstv. ráðherra. Sérstaklega vil ég brýna þetta með bankastarfsemina að ég tel mjög mikilvægt að þarna sé skilið á milli, að menn fari í gegnum þá umræðu í gegnum rökin sem hæstv. ráðherra nefndi hér bæði með og móti. Menn stefni á það að skilja á milli, hvort sem það er gert beinlínis þannig að hér sé alltaf um aðskilin félög að ræða eða aðskilnað með öðrum hætti sem er auðvitað hægt að hugsa sér þó í einu félagi sé. En ég tel að aðskilnaður þarna sé mikilvægur til að lágmarka þá áhættu sem almennir sparifjáreigendur geta þurft að taka á sig.

Ég held að það sem þurfi ekki síst að hafa í huga við uppbyggingu þessarar starfsemi, bæði banka- og vátryggingastarfsemi, séu hinir almennu hagsmunir almennings í landinu, það sé það sem mestu máli skiptir og þurfa að hugsa vel um þá. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að enda þótt svona löggjöf mundi setja vexti bankanna skorður er það ekki endilega neikvætt í sjálfu sér eins og dæmin sanna. Ég held að við getum alveg fullyrt það. Það eru auðvitað takmörk fyrir vexti yfirleitt og við eigum að temja okkur hóf í þessu eins og öðru.

Varðandi frumvarpið um vátryggingafélög sem hér liggur fyrir vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann líti svo á að í því sé í raun og veru tekið á því álitaefni sem ég var að viðra og sem hæstv. ráðherra getur um í viðtali við Morgunblaðið 17. maí síðastliðinn þar sem verið er að ræða um fjárfestingar tryggingafélaga. Lítur hæstv. ráðherra þannig á að í því frumvarpi sé tekið á þessu máli á fullnægjandi hátt?