137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.

42. mál
[14:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrr á þessu ári ákvað hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir að setja á laggirnar nefnd til þess að kanna það sem hefur verið kallað fýsileiki þess að sameina Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskóla Íslands. Að sönnu hefur þessi nefnd býsna opið umboð en þetta út af fyrir sig opnar líka á umræðuna um hvort skynsamlegt sé að sameina þessa skóla. Inn í þessa umræðu blandast líka óhjákvæmilega þær umræður sem hafa orðið í kjölfar álits nefnda sem hafa lagt það til að fara í stórar sameiningar á háskólastiginu.

Það er út af fyrir sig ekki efni þeirrar fyrirspurnar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra. Engu að síður ýtir þetta allt saman undir þá umræðu sem hefur verið í gangi um að sameina Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri við Háskóla Íslands. Auðvitað er hægt að tína til ýmiss konar rök bæði með og á móti slíkri sameiningu en því er ekki að neita að í héraði, Borgarfirði og víðar hefur verið uppi talsvert mikil tortryggni og efasemdir um að skynsamlegt sé að sameina þessa tvo skóla. Það er bent á að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hafi vaxið mjög mikið á undanförnum árum og gegnt sínu hlutverki með miklum sóma og ágætum eftir að honum var komið á laggirnar. Hér er um að ræða á margan hátt einstæðan skóla sem fékk í heimanmund heila rannsóknarstofnun, þ.e. Rannsóknastofnun landbúnaðarins, og hefur verið gríðarlega öflugur skóli. Hann hefur farið í gegnum faglegt mat og staðist það með miklum ágætum. Þarna fer fram fjölþætt kennsla og ekki síður gífurlega verðmæt rannsóknastarfsemi í þágu landbúnaðarins og almennt fyrir rannsóknir og þróunarstarfsemi í landinu.

Þegar við ræðum um sameiningu skóla hlýtur markmiðið að vera fyrst og fremst tvennt, í fyrsta lagi að stuðla að því að efla skólastarfsemi almennt, gera skólastarfsemina betri, gera menntun þess fólks sem nýtir sér hana betri, en jafnframt hitt að reyna að spara fjármuni og að minnsta kosti að stuðla að því að fá jafngott eða betra nám fyrir þá peninga sem við verjum til þessarar starfsemi. Uppbyggingin á Hvanneyri hefur verið á margan hátt ævintýri líkust. Þar hafa menn stofnað nýjar námsbrautir sem hafa verið vaxtarbroddur. Það má til dæmis nefna í þessu sambandi hvers konar nám sem þar hefur verið sett á laggirnar og hefur skipt mjög miklu máli fyrir uppbyggingu skólans.

Þess vegna vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. menntamálaráðherra í tilefni af því að þessi nefnd var sett á laggirnar og vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið almennt um sameiningu háskólastofnana hver sé afstaða ráðherrans til hugmynda um að landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri verði sameinaður Háskóla Íslands.