137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þensluhvetjandi aðgerðir ríkisvaldsins og fjármálastofnana frá árinu 2004 er stór ástæða þess að mörg heimili standa nú frammi fyrir mikilli skuldasöfnun og greiðsluerfiðleikum. Hæst láta þeir nú, eins og hér kom fram, sem voru í fararbroddi fyrir þessum þensluhvetjandi aðgerðum. Hvað sem öllum úrtöluröddum líður og hvernig hér er máluð svört mynd af ástandinu þá er það staðreynd að ríkisstjórnin hefur gripið til margþættra og viðamikilla aðgerða til að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Það veit allur þorri almennings, enda hafa tugþúsundir heimila þegar nýtt sér úrræði ríkisstjórnarinnar en gegndarlaus yfirboð um skuldaniðurfellingar í ýmsu formi sem dynja á almenningi eru hins vegar fullkomlega ábyrgðarlausar.

Seðlabankinn hefur nú lagt mat á helstu tillögur um almenna niðurfellingu skulda og komist að þeirri niðurstöðu að þær séu ófærar í núverandi stöðu og mundi leggja á ríkissjóð 100 milljarða skuldbindingar sem ekki er nokkurt svigrúm fyrir án þess þó að leysa vandann sem við er að etja. Fram kemur að tillögur um flata niðurfellingu skulda séu enda ómarkvissar og kostnaðarsamar leiðir til að leysa úr vanda þeirra sem brýnast þurfa á slíku að halda og þær færa líka mikið fjármagn frá skattgreiðendum til þeirra sem ekki þurfa á aðstoð að halda. Það liggur jafnframt fyrir nú mat Seðlabankans á tillögum talsmanns neytenda sem er eitt form af niðurfellingu skulda og í mati Seðlabankans kemur fram að tillögur hans mundu setja allt endurreisnarferli bankanna í uppnám yrðu þær að veruleika. Með þessu er ég alls ekki að draga úr þeim vanda sem fjöldi fólks stendur frammi fyrir vegna gerbreyttra efnahagsaðstæðna í samfélaginu þar sem skuldir fólks hafa vaxið, kaupmáttur rýrnað, eignir fallið í verði og margir hafa misst atvinnu sína. Það hefur því þrengt verulega að fjárhag allra venjulegra íslenskra heimila. Engu að síður vitum við að langflest heimili munu komast yfir þessa erfiðleika, sum hver hjálparlaust, önnur með þeim úrræðum sem standa fólki til boða til að laga skuldir sínar að greiðslugetu ásamt ýmsum öðrum aðgerðum sem hrint hefur verið í framkvæmd.

Í úttekt Seðlabankans frá því í mars er mikilvæg greining á skuldavanda heimilanna. Af heimilum með neikvæða eiginfjárstöðu eru tæplega 5 þúsund þeirra með neikvæða stöðu upp á 5 millj. kr. eða meira og skulda samanlagt tæplega 20% af öllum heildarhúsnæðisskuldum. Þessi heimili standa verst og eru í mestri hættu á að fara í þrot verði þau fyrir tekjumissi. Hins vegar eru um 60% heimila með meira en 5 millj. kr. í jákvæða eiginfjárstöðu með samtals um 44% af heildarhúsnæðisskuldum.

Nú hefur Seðlabankinn fengið ítarlegri upplýsingar um stöðu þessara sömu heimila, bæði varðandi tekjur þeirra og einnig stöðu bílalána og verða þær niðurstöður kynntar með ítarlegum hætti á næstu dögum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þegar fengið virðast þessar nýju upplýsingar staðfesta að skuldavandi heimilanna sé ekki eins víðtækur og ýmsir halda fram. Tölurnar sýna að um þrír fjórðu hlutar heimila með fasteignaveðlán eða um 74% verja innan við 30% ráðstöfunartekna sinna til að standa undir fasteignalánum sínum og um 80% heimila verja innan við 20% af ráðstöfunartekjum sínum í bílalán. Langstærstur hluti heimila landsins býr því við viðráðanlega greiðslubyrði vegna fasteigna- og bílalána samkvæmt nýjum niðurstöðum Seðlabankans. Um er að ræða um 60% af húsnæðisskuldum landsmanna. Helmingur þeirra heimila sem greiða yfir 30% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir af fasteignaveðlánum er einnig í viðkvæmri eiginfjárstöðu og um 60% þeirra eru með minna en 250 þús. í ráðstöfunartekjur á mánuði. 12% heimila greiða hins vegar yfir 50% af ráðstöfunartekjum sínum í fasteignaveðlán og er helmingur þeirra, um 6% eða um 5 þúsund heimili, einnig með viðkvæma eiginfjárstöðu í húsnæði. Þetta eru hátt í 5 þúsund heimili. Þetta eru heimilin sem sannarlega þurfa á aðstoð að halda og það þarf ekki að koma á óvart að þeir sem hafa tekið lán í erlendum myntum eru fyrirferðarmiklir í þessum hópi.

Rétt er hins vegar að minna á að frá því að þessar upplýsingar voru veittar hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir greiðslujöfnun myntkörfulána og því má vænta þess að staða þeirra einstaklinga sem hafa slík lán hafi batnað talsvert hafi þeir nýtt sér það úrræði. Þessar nýju upplýsingar frá Seðlabankanum sýna hins vegar svart á hvítu að skuldavandi heimilanna er ekki eins skelfilegur og málshefjandi í dag og ýmsir aðrir vilja láta í veðri vaka.

Það er einnig athyglisvert að nýjustu tölur varðandi nauðungarsölu fasteigna og gjaldþrotabeiðnir einstaklinga virðast síður en svo benda til aukningar. Að meðaltali á árinu 2008 bárust sýslumanni um 559 beiðnir um nauðungarsölu fasteigna á mánuði samanborið við 547 beiðnir að meðaltali á mánuði á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs eða aukning um 2%. Fasteignir seldar á uppboðum voru að meðaltali á mánuði á síðasta ári 62 en fyrstu fjóra mánuði þessa árs voru uppboðin 61 að meðaltali á mánuði eða einu færra.

Eftir að lög ríkisstjórnarinnar sem heimiluðu frestun á nauðungarsölu tóku gildi hefur nauðungarsölum eðlilega fækkað stórlega. Frá lokum mars var 71 eign seld á nauðungaruppboði en 354 uppboðum var frestað. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því komið að miklu gagni hvað þetta varðar þó að ekki hafi allir nýtt sér heimild til frestunar uppboðanna. Fjöldi einstaklinga sem úrskurðaðir voru gjaldþrota á árinu 2008 voru að meðaltali 33 á mánuði en á fyrstu fimm mánuðum þessa árs voru gjaldþrotabeiðnir hins vegar að meðaltali 18 á mánuði en gjaldþrotabeiðnir eru alltaf fleiri en gjaldþrot og því bendir allt til helmingsfækkunar á gjaldþrotum einstaklinga. Það blasir því við að úrræði ríkisstjórnarinnar eru að virka. Ég ítreka að þau ættu að duga langstærstum hluta þeirra sem nú eru í vanda vegna húsnæðisskulda enda ætti greiðslubyrði þeirra sem nýta sér greiðslujöfnun að vera svipuð eða jafnvel lægri en hún var hjá viðkomandi fyrir hrun. Við þurfum hins vegar að tryggja að þeir sem eru í vanda fái nauðsynlegan stuðning og ekki síður upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði.

Nú starfa á vegum Ráðgjafarstofunnar um 30 starfsmenn en við hrunið voru þeir sjö. Enginn biðlisti er lengur eftir þjónustu Ráðgjafarstofunnar og munum við kappkosta að tryggja að svo verði áfram. Í samræmi við 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar er í undirbúningi öflugt kynningarátak með útgáfu bæklings sem dreift verður á öll heimili í landinu til að upplýsa almenning um greiðsluerfiðleikaúrræði stjórnvalda sem og fyrirbyggja misskilning um einstök úrræði. Í samræmi við 100 daga áætlunina er nú einnig unnið að endurmati á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Ný greining Seðlabankans sem ég lýsti áðan mun gegna þar lykilhlutverki en einnig er til skoðunar að rýmka heimildir fjármálastofnana ríkisins til einstaklingsbundinna afskrifta í anda greiðsluaðlögunar án þess að til opinberrar innköllunar þurfi að koma eða að niðurfellingin verði skattlögð eins og nú er. Greiðsluaðlögun er afar mikilvægt úrræði en e.t.v. er óþarfi að gera ráð fyrir því að allar aðlaganir skuldabyrði að greiðslugetu fari í gegnum þetta ferli. Það er mikilvægt að skapa forsendu fyrir því að bankar taki á skuldamálum einstaklinga og fyrirtækja eins og kostur er án milligöngu dómskerfisins. Að tillögu ríkisstjórnarinnar var skattalögum breytt í lok síðasta árs til að greiða fyrir slíkum aðgerðum.

Af hálfu fjármálaráðuneytisins er nú verið að leggja lokahönd á reglugerð um beitingu þessa úrræðis þannig að afskriftir eru ekki skattlagðar sem greiða mun mjög fyrir því að bankar geti mætt þörfum viðskiptavina um aðlögun skulda að greiðslugetu og veðrými eigna. Forsendan er að settar verði almennar reglur um slíka greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun sem tryggir jafnræði, gagnsæi og málefnalega meðferð. Einnig er verið að meta betur stöðu einyrkja gagnvart greiðsluaðlögunarúrræðinu. Þá er einnig verið að meta hvort og hvernig koma mætti til móts við þann hóp sem hvað verst er staddur vegna myntkörfulána, ekki síst þeirra sem hafa bílalán í erlendri mynt. Eins og menn þekkja hefur greiðslubyrði þeirra aukist svo um munar og greiðslujöfnun tekur enn sem komið er aðeins til fasteignalána. Þá minni ég á að samkvæmt samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skal unnið að því að draga úr vægi verðtrygginga og auka vægi óverðtryggðra íbúðalána á kjörtímabilinu. Ég hef því þegar falið Seðlabankanum að koma með tillögur um leiðir í þessu efni og vænti þeirra áður en langt um líður.

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram hefur margt verið gert til að styrkja stöðu heimilanna og gera fólki kleift að standa af sér storminn og sú vinna verður viðvarandi verkefni ríkisstjórnar minnar á meðan við göngum í gegnum efnahagserfiðleikana. Margir munu bogna en rétta úr sér aftur þegar um hægist. Þessar staðreyndir breyta hins vegar ekki því að fjárhagsstaða heimilanna hefur versnað gríðarlega á undanförnum missirum og flest ef ekki öll heimili landsins finna fyrir þeim miklu breytingum sem orðið hafa vegna hækkandi verðlags og samdráttar í tekjum. Þann mikla vanda heimilanna getum við aðeins tekist á við á vettvangi efnahagsmálanna með því að styðja við krónuna m.a. með aðhaldi í ríkisfjármálum, vinna gegn verðbólgu og skapa þannig forsendur fyrir enn frekari vaxtalækkunum. Aðeins þannig geta fyrirtækin eflst að nýju og heimilin notið vaxandi kaupmáttar.