137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig minnir endilega að Obama hafi einmitt leitað til okkar vegna þess að hann taldi að við værum svo framarlega í sambandi við endurnýjanlega orku og vildi læra af okkar reynslu. En ég ætlaði reyndar ekki að ræða það.

Ég stoppaði aðeins við í ræðu hv. þingmanns þar sem hún talaði um offors. Ég verð að segja að í ákveðnum málum sem varða einmitt Þjórsárverin mundi ég frekar telja að ég hafi orðið vör við mjög mikið offors gagnvart einmitt heimamönnum. Þegar vísað er til þess að það hafi verið kröftug barátta ákveðinna heimamanna sem hafi gert það að verkum að hæstv. ráðherra er núna búin að hafna skipulagsbreytingum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þá mundi ég einmitt segja að það sé dæmi um kúgun minni hlutans á meiri hlutanum, þar sem má eiginlega orða það svo að minni hlutinn, örfáir einstaklingar hafi þar níðst á vilja meiri hluta þeirra sem búa í því sveitarfélagi.

Það vill líka alltaf gleymast í umræðunni um Þjórsárver að það hafa legið fyrir frá því í mars 2007 tillögur um stækkun friðlandsins sem sátt er um. Það er sátt um það gagnvart sveitarfélögunum og það var sátt milli fulltrúa sveitarfélaganna og fulltrúa umhverfisráðuneytisins í þeirri nefnd, það voru lögð fram drög að því hversu stórt friðlandið ætti að vera. Þess vegna kom það viðkomandi sveitarstjórnarmönnum mjög á óvart þegar þeir sáu síðan þingsályktunartillöguna þar sem gengið var mun lengra en sátt var komin um. Ég mundi kannski vilja fá frekari útskýringu á því hvar hv. þingmaður sér þetta offors, í hverju það er fólgið og þá gagnvart hverjum, því að ég skil ekki alveg þá túlkun sem kom fram í orðum þingmannsins.