137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég náði ekki alveg að klára mál mitt þegar ég kom upp í fyrri umferð. Ég vildi bara fá að taka eitt fram, en það hefur gætt smámisskilnings í fjölmiðlum t.d. varðandi skoðun mína á stækkuninni á Þjórsárverum, ég er fylgjandi stækkun friðlands, það liggur algerlega fyrir. Hins vegar tel ég að til að við náum þeim árangri að friða friðlandið verðum við að gera það í samráði við viðkomandi sveitarfélög. Við getum ekki níðst á sveitarfélögunum frekar en búið er að gera. Við getum ekki þröngvað þeim til að gera það sem t.d. starfsmenn Umhverfisstofnunar eða starfsmenn Náttúrufræðistofnunar eða jafnvel vissir fulltrúar frá Vinstri grænum mundu gjarnan vilja sjá, heldur hljótum við að þurfa að gera það á þann máta að það sé raunhæft að tillagan um friðlýsingu nái fram að ganga. Það liggur fyrir sáttatillaga frá sveitarfélögunum, frá nefnd sem var skipuð fulltrúa umhverfisráðuneytisins, og það kom fram í vinnu fyrrverandi umhverfisnefndar að menn voru fyllilega sáttir við þá stækkun og við erum þá að tala um umtalsverða stækkun á friðlandinu.