137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör og í raun vil ég segja Vinstri hreyfingunni – grænu framboði það til hróss að mér finnst hún koma inn í umræðuna með mun uppbyggilegri hætti en hægt er að segja um fulltrúa Samfylkingarinnar vegna þess að við höfum eytt þessum degi í að ræða um hugmyndir og tillögur að lausnum. Við framsóknarmenn höfum sagt að þetta sé ekki endilega besta lausnin en við skulum setjast yfir þetta og fara yfir þann mikla vanda sem blasir við heimilunum í landinu. Því miður virðist Samfylkingin koma inn í umræðuna með það að markmiði að skjóta þessa hugmynd niður sem er vel framkvæmanleg og mun ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, því eins og við höfum bent á munu erlendir kröfuhafar lenda í því að eignir þeirra hér á landi verði mögulega felldar niður um allt að 50%. Með þessari aðgerð erum við að koma í veg fyrir það að algert kerfishrun verði hér á landi og með þessari aðgerð erum við þar með að bæta eignasafn erlendra kröfuhafa hér á landi. Það verður ríkisstjórnin að skilja og ríkisstjórnin verður að telja erlendum kröfuhöfum (Forseti hringir.) trú um það að með þeirri aðgerð séum við í raun og veru að ganga erinda þeirra líka.