137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

vaxtaákvörðun Seðlabankans.

[10:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Enn á ný kveð ég mér hljóðs um vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands og vil nota tækifærið og beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra. Það er vart ofsögum sagt að niðurstaða og ákvörðun Seðlabankans hefur valdið verulegum vonbrigðum.

Það vaxtastig sem nú er í landinu mun gera endurreisn alls íslensks efnahagslífs erfiðari og sérstaklega mun það valda því að erfiðara verður með hverjum deginum að fást við fjármál ríkisins. Með því að ekki næst kraftur í íslenskt atvinnulíf dregur áfram úr skatttekjum ríkisins og gatið sem fram undan er stækkar. Það kemur fram í yfirlýsingu og fundargerð peningamálastefnu Seðlabankans frá því í maí sl. að ákveðnar forsendur voru gefnar þegar kom að því að spá fyrir um þróun stýrivaxta og þeirrar ákvörðunar sem tekin yrði í byrjun júní. Þar kemur fram, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Verði gengisþróun krónunnar hagstæð og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og nú er gert ráð fyrir, væntir nefndin þess að hægt verði að lækka stýrivexti umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní, en gerir ráð fyrir hægari lækkun stýrivaxta eftir það. Lækkun stýrivaxta getur þó aðeins komið til hafi trúverðug áætlun um aðgerðir stjórnvalda varðandi fjármálastefnuna litið dagsins ljós.“

Nú er þróun gengisins þannig að meðalgengisvísitalan 7. maí var 221 stig en 3. júní var hún 222 stig. Með öðrum orðum, óbreytt til þess að gera. Þá stendur eitt eftir: Þróun ríkisfjármála, aðgerðir í ríkisfjármálum. Þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig stendur á því að Seðlabankinn (Forseti hringir.) kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að lækka stýrivextina þrátt fyrir að gengið hafi haldist með þessum hætti? Er það vegna þess að ekki hafa enn litið dagsins ljós nægjanlega rökstuddar tillögur í fjármálum hins opinbera?