137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Starfsaðferðir ríkisstjórnarinnar í þessu máli og öðrum eru fyrir neðan allar hellur. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra tvívegis á skömmum tíma farið með rangt mál í þinginu. Hann hélt því fram að hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson væri í einkaerindagjörðum á Möltu en svo hefur komið í ljós núna að hann var þar í formlegum erindagjörðum með sendinefnd úr utanríkisráðuneytinu. Og fyrir tveimur dögum hélt hæstv. fjármálaráðherra því fram að verið væri að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum, þær væru ekki hafnar í Icesave-málinu.

Svo erum við kölluð saman hér í morgun og okkur kynnt niðurstaða sem við megum ekki tjá okkur um en á meðan ætlar ríkisstjórnin að útskýra málið frá sínum sjónarhóli með eintómum blekkingum, frú forseti. Ég fullyrði að það sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa haldið fram í fjölmiðlum í dag eru blekkingar. Ég krefst þess að fundinum verði frestað þangað til ríkisstjórnin kemur hér og svarar fyrir þetta. Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur tjáð sig um málið nú þegar lít ég svo á að trúnaði verði aflétt hafi hann ekki verið áréttaður fyrir klukkan fimm í dag.