137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja það fyrir mína parta að þetta er dapurleg uppákoma sem á sér stað núna. Búið er að fara yfir það hér að það var fundað og reifuð kynning fyrir þingflokkum stjórnarandstöðunnar á stöðunni sem væri í þessu máli og menn beðnir um að halda trúnað. Hvað gerist svo þegar menn eru að ræða það í mínum þingflokki að halda trúnað og gera það með sóma og halda sig frá fjölmiðlum? Þá kveikir einn á útvarpinu og spilar viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra.

Ég velti fyrir mér: Er þetta akkúrat það sem ríkisstjórnin hefur verið að boða? Þetta er nákvæmlega það sem hún hefur sagt allan tímann. Þetta er hin opna lýðræðislega stjórnsýsla sem hún boðar. Þetta sýnir sig enn og aftur, við heyrum um þetta í fjölmiðlum, það er talað um þetta í blöðunum og útvarpinu. Þetta er algjörlega óviðunandi. Ég skil ekki við svona uppákomu af hverju forseti frestar ekki fundi og kallar saman formenn þingflokkanna (Forseti hringir.) og fer yfir stöðuna.