137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það eigi ekki að breyta þingsköpum fyrir hæstv. ráðherra frekar en þingmenn. Hæstv. ráðherra getur fengið eins margar mínútur og hann vill ef hæstv. forseti mundi boða til fundar með þingflokksformönnum og sátt næðist um að þetta mál yrði tekið á dagskrá þingsins í dag til að ræða það. Þá getur hæstv. fjármálaráðherra fengið eins margar mínútur og hann þarf til að skýra þingheimi og þjóðinni frá því sem hér fór fram.

Það kemur ekkert orðið á óvart úr herbúðum hæstv. ríkisstjórnar, það er a.m.k. fátt sem kemur á óvart þaðan. Skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar og meirihlutaflokkanna gagnvart þjóðinni, gagnvart þinginu er orðið algjört. Það kristallast kannski í þeim málum sem voru á dagskrá í dag sem eru fyrstu mál hæstv. félagsmálaráðherra sem hann ber fyrir þetta sumarþing og það eru innleiðingar frá Evrópusambandinu. Sá hæstv. ráðherra, sem fer með velferð fjölskyldnanna í landinu, velferð heimilanna, á að vera í fararbroddi (Gripið fram í.) við að slá skjaldborg um heimilin í landinu, (Forseti hringir.) en fyrstu mál hans á dagskrá sumarþingsins eru einhverjar innleiðingar (Forseti hringir.) frá Evrópusambandinu. Hann er kannski, eins og aðrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar, (Forseti hringir.) svo upptekinn (Gripið fram í.) af því að ganga í Evrópusambandið að það kemst ekkert annað fyrir í þeirra haus.