137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er með nokkuð blendnum huga sem ég kem upp í umræðu utan dagskrár um meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum í ljósi þeirra ótrúlegu orða sem féllu hjá hæstv. fjármálaráðherra um að hann nennti bara ekki að leggja það á sig að fara upp í ræðustól til þess að útskýra fyrir þinginu hver staða mála væri í Icesave-viðræðunum. Þvílík skilaboð sem þessi orð eru til Alþingis að það er á mörkunum að maður haldi jafnvægi undir svona ummælum ef okkur er eitthvað umhugað um virðingu Alþingis Íslendinga.

Mig langar að ræða aðeins, óháð Icesave-málunum sem við munum væntanlega ræða hér áfram í dag, í framhaldi af þessari umræðu, um stöðu fyrirtækjanna í landinu og meðferð ríkisbankanna á þeim. Trúlega hefur aldrei verið eins mikilvægt að standa vörð um atvinnustarfsemina í landinu, 17.000 Íslendingar eru atvinnulausir og ef spár ganga fram munu um 3.500 íslensk fyrirtæki fara í þrot á þessu ári. Í ljósi aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar á ég ekki von á því að þessar tölur eigi eitthvað eftir að batna.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem fer með hlutabréf í ríkisbönkunum — stjórnmálamenn hafa aldrei verið eins valdamiklir og á Íslandi í dag — hvaða framtíðarsýn hann hafi í atvinnurekstri hér á landi. Í ljósi þess að mörg fyrirtæki á degi hverjum eru að keyra í þrot vegna himinhárra stýrivaxta, lágs gengis krónunnar sem orsakast af stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, finnst mér brýnt að við fáum svör frá ríkisstjórninni um hvaða framtíðarsýn hún hafi í þeim efnum.

Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þau fyrirtæki verði að miklu leyti tekin yfir í sérstök eignarhaldsfélög ríkisins og rekin undir hatti hins opinbera? Eða sér hæstv. ráðherra fyrir sér að bankarnir muni leysa þessi mál innan dyra í samræmi við þær verklagsreglur sem þar hafa verið útbúnar í samvinnu og samráði við eigendur og stjórnendur íslenskra fyrirtækja? Við erum að tala um að hátt í 70% af íslensku atvinnulífi búa við mikla greiðsluerfiðleika. Þar er síður en svo um að ræða einhverja sérstaka útrásarvíkinga. Við erum að ræða hér um rekstraraðila á verkstæðum, fólk sem rekur ísbúðir, sprotafyrirtæki o.fl.

Ég mundi vilja heyra að ríkisstjórnin segði og sendi þau skilaboð til bankanna sem eigandi þeirra að það eigi að vinna að lausnum á vanda þessara fyrirtækja í samráði við stjórnendur og eigendur þeirra vegna þess að yfir höfuð er þar mjög venjulegt fólk sem lent hefur í því að lán fyrirtækjanna hafa farið fram úr öllu hófi og allar rekstrarforsendur hafa breyst.

Ég velti líka fyrir mér, í ljósi þess að sérstakar verklagsreglur eru í ríkisbönkunum, hvernig stendur á því að við horfum t.d. upp á fáránleg tilboð í vegagerð í landinu þar sem aðilar bjóða jafnvel niður í 50% af kostnaðaráætlun. Sú spurning hlýtur að leita á mann hvort þar sé um aðila í raunverulegum rekstri að ræða eða hvort menn ætli sér að ná einhverjum verkefnum í skyndi, ná greiðsluflæði inn í viðkomandi fyrirtæki og gefast kannski upp í miðju verki.

Ég hef fengið margar athugasemdir frá verktökum, sérstaklega í vegavinnu, sem kvarta mjög yfir því að það skuli viðgangast vegna þess að þeir sjá ekki með nokkrum hætti að þetta geti gengið, að áætlanir með svona lágum tilboðum standist. Það segir sig sjálft ef þeir sem þó reyna að reka starfsemi sína með eðlilegum hætti eiga nær enga möguleika á að fá verk til að mynda í vegagerð á viðráðanlegum kjörum, að framtíðin er ekki björt. Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið að ríkisbankarnir láni verktökum sem bjóða á svona fáránlegu verði og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhverja vitneskju um slíkt.

Ég vil að lokum segja það, hæstv. forseti, að ég tel að við þurfum að auka tiltrú á íslensku efnahagslífi. Það er mikil tortryggni í íslensku samfélagi í dag og það er ekkert óeðlilegt. Ég tel að stjórnarandstaðan eigi að beita sér fyrir því að þeirri tortryggni sé eytt og við eigum að tala kjark í fyrirtækin í landinu. En það verða þá að vera gagnsæjar verklagsreglur innan bankanna, sem ég tel að séu fyrir hendi, og við þurfum þess vegna í sameiningu að viðhalda upplýstri umræðu um stöðu mála í dag. Ég er alveg sannfærður um, (Forseti hringir.) miðað við þær fréttir sem ég fæ úr íslensku viðskiptalífi, að þar má enn margt bæta og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að beita sér í þeim efnum.