137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem fram kom í máli hv. þingmanna sem ræddu á undan mér og held að við verðum bara að undirstrika það að mikilvægt sé að gagnsæi og jafnræði gildi í meðhöndlun bankanna á greiðsluvanda fyrirtækja.

Á meðan hv. þm. Birkir Jón Jónsson kallar eftir skipunum af hálfu ríkisvaldsins eða skilaboðum um að samráð verði haft við eigendur frábiður hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sér heljartak ríkisins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við sem stjórnvöld ýtum ekki undir tortryggni í garð bankanna og fjármálakerfisins heldur tryggjum að lög, reglur og aðferðir sem þar er beitt séu með sómasamlegum hætti og með gagnsæi og jafnvægi að leiðarljósi, en það er ekki okkar að senda skilaboð með öðru móti en reglusetningu.

Ég vil síðan gera að umtalsefni að á vegum Fjármálaeftirlitsins starfar úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og á vegum bankanna eru nú starfandi umboðsmenn viðskiptavina. Ég tel alveg eðlilegt að bæði viðskiptanefnd og eftir atvikum efnahags- og skattanefnd taki til athugunar hvort þessir eftirlitsaðilar séu nógu sterkir eða hvort við þurfum að koma inn og styrkja þá enn frekar til að draga úr tortryggni í garð fjármálakerfisins. Ég held að þetta sé okkar mikilvæga verkefni og þannig sendum við skilaboð.