137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:53]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum nú er vissulega eitt af þeim brýnustu sem íslenskt atvinnulíf og íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir. Eitt stærsta verkefnið sem að okkur snýr vegna þeirra atburða sem gerst hafa undanfarna mánuði og missiri er einmitt að fara í gegnum stöðu þeirra fyrirtækja sem enn lifa en eru í miklum þrengingum, afar mörg, af ástæðum sem hér er ekki ástæða til að rekja. Það eru auðvitað mörg sjónarmið sem þarf að skoða en tímans vegna ætla ég einungis að tæpa á nokkrum þeirra.

Eitt er að það verður að gera greinarmun á fyrirtækjum eftir eðli þeirra í svona vinnu. Það er t.d. mjög erfitt að réttlæta það að ríkisbankar, eða ef út í það er farið önnur fjármálafyrirtæki, leggi mikið upp úr því að endurreisa ýmis eignarhaldsfélög sem nú eru flest rúin eignum en hlaðin skuldum. Það þjónar afskaplega litlum þjóðfélagslegum tilgangi að halda lífi í þeim.

Hins vegar þjónar miklum þjóðhagslegum tilgangi að halda lífi í sem flestum rekstrarfélögum. Það eru þau sem búa til vörur og þjónustu. Þau eru með fólk á launaskrá, þau munu greiða skatta framtíðarinnar og þeim þarf í flestum tilfellum að halda á lífi, en það verður auðvitað ekki gert nema í samvinnu við eigendur eða fyrrverandi eigendur í langflestum tilfellum. Að vísu getur verið að hægt sé að koma við nýjum eigendum að stærstu fyrirtækjunum sem eru rekin sem hlutafélög sem hægt er að selja hluti í. En lítil og meðalstór fyrirtæki eru flest þess eðlis að starfsemi þeirra er svo nátengd eigendum að það er mjög erfitt að sjá hvernig hægt er að endurskipuleggja þau nema í samvinnu og samstarfi við núverandi og fyrrverandi eigendur.