137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefði í rauninni þurft að vera lengri vegna þess að við erum að tala um svo gríðarlega mikilvægt mál sem málefni atvinnulífsins á Íslandi í dag er þar sem hátt í 70% íslenskra fyrirtækja glíma við mikla rekstrarerfiðleika.

Í ljósi þess að ríkisbankarnir eru undir forræði ríkisstjórnarinnar, þ.e. fjármálaráðherrans, finnst mér mikilvægt að við fáum skýr svör í þessari umræðu, hvort það standi til að fara að ríkisvæða atvinnulífið í gríðarlega miklum mæli eða hvort það standi ekki frekar til að endurskipuleggja fyrirtækin inni í bönkunum í samráði við fyrrverandi eigendur og núverandi stjórnendur til að hámarka þau verðmæti sem liggja í þessum fyrirtækjum.

Ég er mjög hræddur við það, eins og okkur hefur grunað á síðustu vikum og mánuðum, að stjórnvöld ætli sér eða hafi langanir til að koma fyrirtækjum inn í opinbert eignaumsýslufélag og ég held að það yrðu, ef það yrði í miklum mæli, mikil mistök fyrir samfélagið allt. Vegna þess að það liggur mikil þekking hjá stjórnendum og eigendum núverandi fyrirtækja og þó að þau eigi í erfiðleikum er einfaldlega ekki við margt af þessu fólki að sakast vegna þess að það hefur orðið gríðarlegur forsendubrestur í rekstrarskilyrðum íslenskra fyrirtækja.

Ég mundi vilja sjá þau skilaboð, almennu skilaboð koma frá fjármálaráðherranum til bankanna að menn vinni með kúabóndanum, eiganda sprotafyrirtækisins, eiganda sjoppunnar að því að endurskipuleggja rekstur hjá viðkomandi þannig að við gerum þetta í sátt og hámörkum þau verðmæti sem liggja í atvinnutækifærum landsmanna. Við skulum reiða okkur áfram á einkaframtakið, að einstaklingar reki áfram atvinnustarfsemi í landinu (Forseti hringir.) í sem mestum mæli og treysta því fólki vegna þess að margt af því fólki sem glímir (Forseti hringir.) við mjög erfiðan rekstur í dag hefur ekkert til saka unnið heldur er um utanaðkomandi aðstæður að ræða.