137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er lítið eða ekkert orðið eftir af því sem þessi ríkisstjórn lagði upp með og kynnti sem ástæðu þess að menn ættu að fagna þessari sögulegu valdatöku vinstri flokkanna á Íslandi. Hér er níðst á þinginu og það sem verra er, það er verið að níðast á þjóðinni með því sem hér er að gerast í dag.

Ég ætla aftur að vitna í hæstv. fjármálaráðherra frá því fyrir tveimur dögum þegar ég spurði hann um það hvort eitthvað væri að gerast í Icesave-málinu.

Hæstv. ráðherra svaraði þá, með leyfi forseta:

„Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Þetta er ósatt, frú forseti.