137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég fer fram á að utanríkismálanefnd verði kölluð saman strax til að ræða þetta mál. Þetta er alveg gríðarlegt hagsmunamál sem hér er um að ræða. Það hafa þegar komið fram vissar upplýsingar um þennan áformaða samning í fjölmiðlum og út frá þeim upplýsingum sem þegar hafa komið fram má reikna út að eingöngu vextirnir, vextirnir fyrsta árið séu jafnháir og nemur meðallaunagreiðslum til 10 þúsund Íslendinga og þá eru ekki tekin með hugsanleg margföldunaráhrif. Það sé verið að borga sem samsvarar launum 10 þúsund Íslendinga í vexti fyrsta árið. Þetta vill ríkisstjórnin ekki ræða. Hún vill halda áfram að ræða einhver EES-ákvæði, hér er einn ráðherra mættur, ópólitískur ráðherra sem ætlar væntanlega að fara að fjalla um þessi EES-ákvæði sín þegar þetta mikilvægasta hagsmunamál hugsanlega nokkurn tíma í sögu þingsins, mikilvægasta efnahagslega hagsmunamál fæst ekki rætt í þinginu. Þetta er hneisa.