137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrir skömmu spurði ég hæstv. forseta um hvort hún væri ekki til í því að taka mál út af dagskrá sem þola bið og boða nýjan fund þar sem við fengjum skýrslu fjármálaráðherra um það mál sem hér hefur verið rætt og er efst á baugi. Ég hef ekki fengið nein svör við því.

Nú er forseti kosinn af okkur þingmönnum til þess að stýra þinginu. Ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann hérna sem vill tala núna um tilskipanir Evrópusambandsins það sem eftir lifir fundar og allir hafa þingmenn óskað eftir því að fundi verði slitið og annaðhvort hv. utanríkismálanefnd kölluð til starfa eða boðaður nýr þingfundur.

Ég óska eftir því að fá svar hjá forseta mínum, forseta Alþingis, við þessum spurningum mínum sem eru í rauninni dagskrártillaga um að taka mál út af dagskrá og slíta fundi og boða nýjan fund.