137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram löng umræða um fundarstjórnina og dagskrána í dag þar sem farið hefur verið fram á að Icesave-deilan verði rædd sérstaklega. Af því virðist ekki ætla að verða og þess vegna hefur verið óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd. Jafnvel þótt þar hafi fundur farið fram í morgun hefur auðvitað í millitíðinni verið haldinn ríkisstjórnarfundur og því er full ástæða til að fá skýr svör og upplýsingar í utanríkismálanefnd um það hvernig ríkisstjórnin vill, á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún fékk í morgun, að málinu verði haldið áfram, hvort til stendur að ljúka samningunum eður ei.

Í ljósi þess að málið virðist ekki fást rætt hér sérstaklega með breyttri dagskrá (Forseti hringir.) er nauðsynlegt að fara fram á fund í nefndinni.