137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

erindi frá kröfuhöfum vegna íslensku bankanna.

[15:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra. Við þekkjum það að nú hefur ríkisstjórnin kynnt samninga um gríðarmiklar skuldbindingar vegna Icesave-deilunnar en það væri kannski forvitnilegt að vita líka hvað snýr að annars konar samningum og þá er ég að vísa í viðreisn bankanna. Eins og menn þekkja hafa þau mál gengið mjög hægt og vakti athygli landsmanna að einn af ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar hótaði að hætta að taka þátt í því ferli sökum þess hve hægt gengi.

Í tengslum við þessi mál hafa heyrst ansi óljósar fregnir og sögusagnir og lítið verið upplýst hver raunveruleg staða mála er. En þar sem hæstv. viðskiptaráðherra, a.m.k. áður en hann varð hæstv. viðskiptaráðherra, lagði mikið upp úr gagnsæi í stjórnsýslunni og núverandi ríkisstjórn hefur lagt upp með að það allt væri uppi á borðum, vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að lánardrottnar hafi séð ástæðu til að skrifa fulltrúum viðkomandi þjóða hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í þeim tilgangi að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og sömuleiðis að þeir séu búnir að leggja fram formlega kvörtun til EFTA yfir framgöngu stjórnvalda í sinn garð. Miðað við þær fregnir sem maður hefur eru nokkrar vikur síðan þetta var, í rauninni tilgreint fyrir kosningar. Ég vildi fá að vita það hjá hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að sendar hafi verið kvartanir til EFTA og afrit af þeim bréfum hafi borist til ríkisstjórnarinnar og ráðherra í ríkisstjórninni. Ef svo er, til hvaða aðgerða hefur verið gripið í kjölfar þess?