137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

umboð samninganefndar í Icesave-deilunni.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Umboð samninganefndarinnar sem er skipuð af framkvæmdarvaldinu er sótt í samþykkt Alþingis sem fól framkvæmdarvaldinu 4. desember sl. að leiða þetta mál til lykta á tilteknum forsendum. Erindisbréf nefndarinnar var, að ég held, gert opinbert um leið og hún var skipuð eða öllu heldur endurskipulögð í febrúarmánuði. Viðræðunefnd hóf strax störf eftir afgreiðslu Alþingis á þingsályktunartillögu í öndverðum desembermánuði en hún var endurskipulögð eftir stjórnarskipti með nýju erindisbréfi og það liggur fyrir og er opinbert. Ég er ekki með það við höndina en það er ekkert vandamál að finna það til. Ég leyfi mér að fullyrða, ef minni mitt svíkur ekki, að það hafi verið gert opinbert um leið og fréttatilkynning um þessa endurskipuðu samninganefnd leit dagsins ljós síðla í febrúarmánuði og rétt eins og í tilviki fyrri samninganefndarinnar í tíð fyrri ríkisstjórnar var hlutverk þessarar nefndar að leiða málið til lykta á þeim forsendum sem Alþingi hafði ákveðið.