137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

umboð samninganefndar í Icesave-deilunni.

[15:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa gleymt að ávarpa hæstv. fjármálaráðherra rétt nú áðan. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og ég túlka það svo að hann muni útvega mér umboðið sem þessi nefnd hafði. Ef það liggur ekki ljóst fyrir í gögnum Alþingis óska ég eftir að hann útvegi mér það, því að það er mjög mikilvægt að hafa það alveg á hreinu hvort það umboð sem ný samninganefnd fékk sé í samræmi við það sem fyrri nefnd fékk og hvort það byggi á þeirri ályktun sem hér er vísað til.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það kemur fram að ríkisstjórninni er falið að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld og því kalla ég eftir því hvort samninganefndin hafi verið með það hlutverk óyggjandi.