137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í virkjanamálum.

[15:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Í nýútkominni þjóðhagsspá er gert ráð fyrir framkvæmdum í Helguvík og Straumsvík í grunnspá og viðeigandi orkuöflun til þess að af þeim verkefnum geti orðið. Þar er gert ráð fyrir því að mesti kraftur framkvæmdanna verði á tímabilinu 2010–2012. Samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins er þessum framkvæmdum ætlað að drífa áfram hagvöxtinn sem spáð er á tímabilinu. Þess vegna skiptir miklu máli að áform um þessar framkvæmdir séu skýr og tímasetningar eins nákvæmar og nálægt í tíma og hægt er á þeim óvissutímum sem nú ríkja, en við vitum auðvitað öll að það er allt í óvissu með fjármögnun og fleira bæði hvað varðar orkuöflun og aðra hluti í þessum verkefnum.

Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að því hvort hún telji að þær tímasetningar sem í þjóðhagsspánni eru og skipta verulega miklu máli um allt okkar efnahagslíf á komandi árum, muni standast. Og ef hún telur svo ekki vera, hvort ríkisstjórnin og hún sem iðnaðarráðherra muni beita sér í þá átt að liðka fyrir þessum framkvæmdum eða flýta þeim ef þess er nokkur kostur.