137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í virkjanamálum.

[15:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Þær framkvæmdir sem settar eru í þjóðhagsspá eru yfirleitt komnar það langt að nokkur vissa á að vera um að af þeim geti orðið. Og þegar um er að ræða framkvæmdir sem eiga að drífa fram þann hagvöxt sem við sjáum fram undan — vegna þess að það er nú ekki eins og það sé um mikið annað að ræða í þessu — skiptir miklu máli að um þær ríki nokkuð mikil vissa.

Mér finnst ánægjulegt að heyra hæstv. iðnaðarráðherra lýsa því svona ákveðið yfir að þessi verkefni séu á tímaási. En þegar horft er til fréttaflutnings frá orkufyrirtækjunum um fjármögnun og einnig til þess í hvaða stöðu mál neðri Þjórsár og Búðarháls eru hjá ríkisstjórninni vekur það töluverðan ugg um að af þessum framkvæmdum geti ekki orðið.

Ég held því að það sé mjög mikilvægt að ríkisstjórnin öll sé sammála um að þessi verkefni komist á koppinn og vinni að því saman að svo geti orðið. Öðruvísi verður ekki drifinn áfram hagvöxtur hér á landi næstu ár sem skapar enn meiri vandræði fyrir íslenskt þjóðarbú.