137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að þetta mál sem tengist Icesave-deilunni er eitthvert það allra erfiðasta sem við Íslendingar höfum lent í. Ég held að sú milliríkjadeila sem af henni spratt sé líklega erfiðasta deilan sem Íslendingar hafa nokkru sinni átt í.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson á í reynd hrós skilið fyrir ræðu sína. Hv. þingmaður reyndi ekki með neinum hætti að hlaupast undan þeirri ábyrgð sem hann og auðvitað ég sem sátum í þeirri ríkisstjórn sem var á sínum tíma hér við völd bárum með því að fara þessa leið. Við höfðum þá tvo kosti. Annars vegar að neita því að standa við þær skuldbindingar sem segja má að við höfum bakað okkur með þátttöku í alþjóðlegum samningum og fara það sem menn hafa hér kallað fram í, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, dómstólaleiðina. Það var kostur sem menn auðvitað ræddu. Hins vegar var það sú leið sem við vorum sammála um, ég og hv. þingmaður sem nú er formaður Sjálfstæðisflokksins, að fara, þ.e. samningaleiðina.

Ef við reifum aðeins þessa tvo kosti blasti það við að á þeim tíma þegar það fólk sem núna er fyrir utan að berja búsáhöld var líka statt fyrir utan Alþingi og krafðist þess að dómstólaleiðin yrði farin, þá skoðuðu menn það. Fyrri ríkisstjórn skoðaði það eins og hægt var. Hún kallaði m.a. til erlenda sérfræðinga og það var eitt af því sem menn vildu. Menn kröfðust þess að fá erlenda hlutlausa sérfræðinga og niðurstaða þeirra, fleiri en einnar lögfræðistofu, var að sú leið væri ekki líkleg til að skila nokkrum árangri (Gripið fram í: Gerðardómur.) og menn fundu ekki einu sinni dómstólinn sem átti að fara með málið til.

Hv. þingmaður talar hér um gerðardóm. Það var að vísu svo, hv. þingmaður, að fyrrverandi fjármálaráðherra féllst á það einhliða, án þess að bera það undir ríkisstjórnina, að setja málið í gerðardóm Evrópusambandsins en því var hafnað. Því var hafnað af þeim sem störfuðu þá með honum í ríkisstjórn.

Ákvörðunin eða rökin sem lágu því til grundvallar, frú forseti, að fara samningaleiðina — og af því að hv. þm. Bjarni Benediktsson óskar eftir því að menn ræði þetta opið og einlægt ætla ég að gera það — ástæðan fyrir því var auðvitað sú að menn stóðu einir. Í þeirri miklu milliríkjadeilu sem við áttum þá í var alveg ljóst að þeir sem voru stuðningsmenn okkar, hvort heldur var innan EES eða á Norðurlöndunum, töldu ekki rétt hjá okkur að virða skuldbindingar okkar að vettugi. Þeir gáfu mjög sterklega til kynna að þetta skipti máli fyrir aðkomu þeirra að málum.

Ég held að það sé rétt að segja það bara eins og ég upplifði það, og ég er viss um að hv. þingmaður sem þá var formaður utanríkismálanefndar gerði það líka á sínum tíma, að við þurftum á atbeina þeirra að halda. Þegar við, Alþingi Íslendinga, vorum sammála um að fara þá leið sem tengist Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var líka ljóst að inn í þann pakka þurftum við að fá stuðning Norðurlandaþjóðanna. Það kom alveg skýrt fram að til þess að fá það lán var það forsenda okkar að við skýrðum skuldbindingar okkar, og lán þeirra var forsenda þess að við gætum fjármagnað þann björgunarleiðangur sem fyrrverandi ríkisstjórn, þar á meðal ég og hv. þingmaður, var sammála um að þyrfti að fara.

Á þessum tíma var það einfaldlega þannig að engin þjóð taldi rétt að við færum þá leið. Ef við hefðum farið hana, af því að hv. þingmaður leitar eftir afstöðu til þess, þá tel ég að það hefði orðið til þess að Ísland hefði einangrast á alþjóðavettvangi. Við hefðum í reynd slegið um okkur efnahagslega víggirðingu. Það hefði verið mjög erfitt fyrir okkur að halda áfram þeim alþjóðlegu viðskiptum sem Ísland sem útflutningsland byggir á. Þetta skiptir auðvitað ákaflega miklu máli. En nú segja gagnrýnendur samningsins að menn hefðu ekki átt að fara þessa leið, menn hefðu átt að fara dómstólaleiðina. Og menn tala hér utan úr sal eins og það hefði engu máli skipt að leitað var til erlendra sérfræðinga, faglegra sérfræðinga sem komust að þeirri niðurstöðu (Gripið fram í: Hvar eru þau álit?) að það væri einfaldlega ekki fararinnar virði.

Það kom fram — af því hér er kallað, hvar eru þau álit? — á sínum tíma og af hálfu ríkisstjórnarinnar voru niðurstöðurnar birtar í fréttatilkynningu. (Gripið fram í: Hvenær?) Mig minnir að það hafi verið í annarri viku janúar, ég er þó ekki alveg viss um það. Ég hef fréttatilkynninguna og get látið hv. þingmann fá hana hér.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson reifaði með málefnalegum hætti ýmsa vankanta sem honum finnst vera á þessum samningi, þar á meðal vextina. Það kann að vera að það hefði verið miklu æskilegra að hafa samninginn öðruvísi og ég er alveg sammála hv. þingmanni að ég væri til í að gefa vinstri höndina á mér til að hafa getað komið með betri samning. Ég trúi því hins vegar og treysti að við þær aðstæður sem samninganefndin starfaði hafi þetta verið besta niðurstaðan.

Við hv. þingmann, formann Sjálfstæðisflokksins, segi ég hins vegar: Þær fimm, sex málefnalegu athugasemdir sem hann kom fram með varðandi þak, varðandi vexti, vaxtahæðina o.s.frv., varðandi lengd lánsins, er að sjálfsögðu eitthvað sem þingið verður að fjalla um og mun fjalla um í umfjöllun sinni um þetta mál því að málið kemur auðvitað til kasta þingsins.

Hitt getur hv. þm. Bjarni Benediktsson ekki sagt, að það sé ekki boðlegt hjá hæstv. fjármálaráðherra að reifa hér það minnisblað um samningsstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir gagnvart Hollendingum. Þó að hv. þingmaður … (Gripið fram í.) Ég segi það alveg hreinskilnislega að um það vissi ég aldrei þegar það var gert en ég sem starfandi utanríkisráðherra kom hins vegar í veg fyrir (Gripið fram í.) að sams konar samkomulag væri gert af hálfu Sjálfstæðisflokksins við Breta.

Hvar stæðum við í dag ef við hefðum ekki einungis asnast til að skrifa undir þetta minnisblað við Hollendinga heldur líka gagnvart Bretum? Ég get staðfest það sem aðalsamningamaðurinn sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að samningsblaðið sem var undirritað við Hollendinga elti okkur eins og afturganga í gegnum alla þessa samninga. Það get ég vitnað um. (Gripið fram í.) Ég hef sjálfur átt viðtöl við erlenda ráðherra þar sem þetta kom skýrt fram. Ég tel rétt að þegar þingið fjallar um þetta mál komi fram þær bréfaskriftir sem á undanförnum vikum og mánuðum hafa átt sér stað, t.d. við samningamenn Hollands, og þá getur hv. þm. Bjarni Benediktsson séð það sjálfur svart á hvítu hvort þetta er rétt eða rangt.

Ég hrósa hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir að koma hingað og tala málefnalega um þetta, hann hleypst ekki undan ábyrgð. En ég get hins vegar ekki annað en álasað honum fyrir að koma hingað og segja að það sé ekki boðlegt að vísa til þess sem er staðreynd í málinu, að samningsstefna Sjálfstæðisflokksins gerði þetta mál allt saman miklu verra. Ég ætla ekki að halda því fram að án hennar hefði niðurstaðan orðið betri en sannarlega varð hún ekki til þess að hjálpa okkur. (Gripið fram í: Hvar var utanríkisráðuneytið?) Já, akkúrat, hvar var utanríkisráðuneytið? Utanríkisráðuneytið er búið að vinna (Gripið fram í: Og bankamálaráðherra?) baki brotnu í vetur við það að sveifla samningunum úr þeim farvegi sem þetta ólukkuminnisblað við Hollendingana leiddi til. Það er það sem við höfum verið að gera. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég ætla að vísa til þess að hv. þm. Bjarni Benediktsson var á sínum tíma formaður utanríkismálanefndar. Hann telur núna að við munum þurfa að bera þunga bagga vegna þessa samnings. Þegar hann hélt ræðu sína hér 5. desember síðastliðinn greindi hann frá því að hann sem formaður nefndarinnar og nefndin undir hans forustu hefðu kannað skuldir og eignastöðu Landsbankans. Og hann þrítók það að vísu, til að ég sé algjörlega heiðarlegur gagnvart þingmanninum, að niðurstaðan væri að sjálfsögðu undirorpin mikilli óvissu. En hv. þingmaður komst eigi að síður að þeirri niðurstöðu, með leyfi forseta:

„Sá möguleiki er því fyrir hendi að eignir Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum þannig að ekkert falli á ríkissjóð.“

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Síðan hafa eignir bankans heldur styrkst og þegar haft er í huga að skilanefndin hefur núna sjö ár til að fá sem mest út úr þeim leyfi ég mér að fullyrða að sá möguleiki sem hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi 5. desember sé töluvert meiri nú en þá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann eða þann talsmann Sjálfstæðisflokksins sem talar á eftir: Ef eignirnar dugðu hugsanlega fyrir öllum forgangskröfum í desember hvers vegna ekki núna? (Gripið fram í.)