137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:23]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér eitt stærsta viðfangsefni sem við er að glíma í íslensku samfélagi um þessar mundir. Ofvöxtur íslenska fjármálakerfisins hefur sannarlega leikið íslenskt samfélag grátt. Það er ekki gott að segja hvert megi rekja upphafið að þessari þróun. Það skiptir kannski ekki öllu máli þegar við erum komin á þennan tímapunkt hér.

Mörg orð, stór og þung, hafa fallið í þessari umræðu í dag og eins þegar umræða fór hér fram utan dagskrár á föstudaginn var. Vonandi fyrir þá sem hafa látið þau orð falla er innstæða fyrir þeim þeirra vegna eða að þeir geti sýnt fram á það eða sannað með einhverjum hætti. Að mínu mati er ekki stórmannlegt að koma í ræðustól Alþingis og saka fólk um svik eða jafnvel landráð. Það eru stór og þung orð sem menn eiga ekki að láta falla nema menn séu algerlega sannfærðir um að geta fært fyrir þeim óyggjandi sannanir.

Bankarnir fengu fullt frelsi á sínum tíma til þess að fara í hömlulausa útrás, sumpart undir verndarvæng regluverks Evrópska efnahagssvæðisins, sumpart einfaldlega vegna þess að íslensk yfirvöld höfðust ekkert að, jafnvel ekki þegar hver viðvörunarbjallan á fætur annarri gall við hátt og rauð ljós loguðu. Allt fram að bankahruninu í október var Landsbankinn að stofna til skuldbindinga í eigin nafni sem íslenskur banki og á grundvelli íslenskra laga. Þáverandi ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis samþykkti að láta ekki reyna á lögmæti innstæðutryggingarsjóðs og vandséð er reyndar hvaða dómstóll eða úrskurðaraðili hefði tekið slíkt að sér.

Frestur til að höfða mál vegna beitingar hryðjuverkalaganna rann út 7. janúar eins og kunnugt er og var ekki nýttur af þáverandi stjórnvöldum. (Gripið fram í: Var ekkert að marka það sem ...) Fyrir liggur viljayfirlýsing eða samþykki stjórnvalda frá því í októbermánuði sem hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir. (Gripið fram í: Þú hefur líka ...) Ég get gert grein fyrir því líka, sem ég hef reyndar gert áður hér á þessum vettvangi, að á fundi þingmannanefndar EFTA í nóvember síðastliðnum þar sem ég sat og meðal annarra hæstv. núverandi iðnaðarráðherra og þáverandi formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarni Benediktsson, og fleiri, þá kom þessi deila til umfjöllunar. Við gerðum að sjálfsögðu athugasemdir við það hvernig Evrópusambandið hefði tekið á því máli og hvaða viðhorf væru þar ríkjandi í garð okkar Íslendinga.

Það kom líka fram að í sömu viku áttu fjármálaráðherrar EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins fund þar sem mjög var þjarmað að fjármálaráðherra Íslands þáverandi, Árna Mathiesen, og eftir því sem ég best veit var þar fallist á ákveðinn gerðardóm til þess að leiða þetta mál til lykta af því að gerðardómur hefur hér verið nefndur í þessari umræðu. Það tók þann hóp sem þá var skipaður einungis einn eða tvo sólarhringa að komast að þeirri niðurstöðu að við Íslendingar yrðum að standa við þær skuldbindingar sem fólust í tilskipuninni um innstæðutryggingarsjóð (Gripið fram í: Uppgjöf.) á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins. (Gripið fram í: Uppgjöf.) Það var gerðardómsleið sem var reynd en íslensk stjórnvöld drógu sig síðan (Gripið fram í: ... tóku ekki mark á ...) út úr. Þetta er nú staðan og þetta er staðan sem núverandi ríkisstjórn tók við og sú samninganefnd sem skipuð var í lok febrúar. Þetta er ömurleg staðreynd en engu að síður staðreynd. Því miður var ekki unnt að skrúfa tímaklukkuna til baka í þessu efni svo mjög sem maður hefði að sjálfsögðu kosið það.

Reiðin sem við finnum innra með okkur og brýst líka út í fjölmörgum bréfum sem við þingmenn höfum fengið í dag og undanfarna daga er eðlileg og hún er skiljanleg og við eigum ekki að gera lítið úr henni. Reiðin beinist að sjálfsögðu ekki síst að þeim sem báru hina raunverulegu ábyrgð á þessu ævintýri öllu og það er mikilvægt, virðulegur forseti, að við látum hér ekki staðar numið. Það er mikilvægt fyrir okkur að krefjast þess ekki að Ísland einangrist vegna þessara deilna við nágrannaþjóðir heldur eigum við núna líka að standa saman og þrýsta á stjórnvöld að leita allra leiða til þess að þeir sem bera ábyrgð á því að til þessara skulda var stofnað (Gripið fram í: Þú ert ...) beri hana, (Forseti hringir.) að þeir verði leiddir til ábyrgðar og við leitum allra (Forseti hringir.) leiða til þess að þeir verði látnir svara til (Gripið fram í.) saka.