137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:33]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, að þetta mál er ein dapurlegasta birtingarmynd hrunsins fyrir okkur Íslendinga. Við fáumst við afleiðingar þess í dag.

Það er hins vegar ekki rétt að segja að við eigum ekkert val. Við eigum auðvitað val um að samþykkja þann samning sem nú hefur verið gerður eða ekki. Það er hins vegar erfitt val vegna þess að sá kostur, að ganga ekki til samninga, hefur í för með sér mjög alvarlegar og erfiðar afleiðingar fyrir íslenska þjóð.

Afleiðingarnar eru jafnerfiðar fyrir íslenska þjóð og þær voru í haust þegar við ræddum þetta mál. Við vitum að ef við kjósum að semja ekki um niðurstöðu þessa máls höldum við íslensku efnahagslífi í áframhaldandi óvissu. Við komum í veg fyrir þær nauðsynlegu stýrivaxtalækkanir sem eru algjörlega nauðsynlegar til að íslenskt efnahagslíf komist í gang. (Gripið fram í.) Við komum í veg fyrir að við fáum nauðsynlega lánafyrirgreiðslu frá Norðurlöndunum því að það er algjörlega ljóst að þessi samningur er forsenda slíks. Samningurinn er forsenda frekari fyrirgreiðslu og samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ef ekki er samið mun það torvelda og koma í veg fyrir að við getum gengið frá málum við kröfuhafa í gömlu bankana og þar með gert upp og skilið á milli gömlu og nýju bankanna og komið efnahagskerfinu á fót eftir hrunið. Það liggur fyrir núna alveg eins og í haust að það er afstaða viðsemjenda okkar að ef við göngum frá ábyrgð í þessu máli göngum við gegn skyldum okkar samkvæmt EES-samningnum. Það er ljóst að samkvæmt EES-samningnum hafa viðsemjendur okkar, önnur ríki í EES, þeir sem telja á sér brotið, rétt til gagnaðgerða gagnvart Íslandi og geta fellt úr gildi einstaka hluta samningsins gagnvart Íslandi með þeim vanefndaákvæðum sem þeim eru játuð í samningnum sjálfum. (Gripið fram í: Þetta er hræðsluáróður.)

Þetta eru hinar lögfræðilegu staðreyndir málsins. Það kann að vera að það sé lögfræðilegur ágreiningur í málinu og það eru vissulega lögfræðingar á Íslandi sem tala fyrir annarri niðurstöðu. Við prufuðum þau lögfræðilegu rök, virðulegi forseti, á viðsemjendum okkar undanfarna mánuði og missiri. Það er ljóst að þau rök eru afskaplega þjóðernisbundin við Ísland og eiga ekki hljómgrunn meðal viðsemjenda okkar. (Gripið fram í.)

Það er líka einróma afstaða annarra ríkja í þessu máli. Og að því er varðar það að byggja málið á lögfræðilegum ágreiningi tel ég að hv. þm. Bjarni Benediktsson hafi orðað þetta vel í haust þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.

Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðum en við höfum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum.“

Þar fyrir utan, virðulegi forseti, var aldrei ljóst til hvaða dómstóla við ættum að leita vegna þess að viðsemjendur okkar voru ekki tilbúnir að leggja málið fyrir dómstóla. Og af því að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vitnaði áðan í landhelgisþrætuna er rétt að minna á að árið 1961 nýttu Íslendingar sér einmitt þann rétt að neita að fara með málið fyrir dómstóla. Þeir höfðu til þess fullan rétt.

Það er ein grundvallarregla þjóðarréttar sem öllum þeim íslensku lögspekingum sést yfir sem eru að reyna að halda því fram að unnt sé að fá þessu máli lokið fyrir dómstólum. Það er grundvallarregla þjóðarréttar að ríki geti neitað að leggja mál fyrir dómstóla. Það er einfaldlega afstaða viðsemjenda okkar í þessu máli. Til þess hafa þeir fullan lagalegan rétt (Gripið fram í.) þótt við getum verið ósátt við að þeir nýti þann rétt sinn. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þingið ræður að sjálfsögðu hvort þessi samningur er fullnægjandi eða ekki. Ég tel margt benda til þess að hann sé það og færi hér sérstaklega fram eftirfarandi rök:

Sjö ára afborgunarleysi skiptir mjög miklu máli. (Gripið fram í.) Það lá aldrei fyrir í vetur þegar við skoðuðum hvaða samninga við gætum fengið og það er mjög mikilvægt. Það blasir við að við þurfum að skera niður ríkisútgjöld um 170 milljarða. Ef við værum að borga vexti upp á kringum 40 milljarða á ári til viðbótar næstu þrjú árin getum við rétt ímyndað okkur hver aðhaldsþörfin í ríkissjóði væri þá. Þá hefðum við þurft að skera samfélagið sundur þannig að við réðum ekki við að halda uppi siðuðu samfélagi hérna. Það er okkur mjög mikilvægt á þeim miklu aðhaldstímum sem fram undan eru að við getum byggt samfélagið upp. (Gripið fram í.) Að við getum haldið aðhaldsþörfinni hóflegri, eins hóflegri og hægt er þótt augljóslega verði hún erfið, en skerum okkur ekki inn að beini með auknum vaxtagreiðslum.

Það er líka ljóst að sú gagnrýni sem hér hefur verið lögð fram á vaxtastigið er ekki að fullu rétt. Það er ekki hægt að bera saman (Forseti hringir.) dagvexti stýrivaxta erlendis og langtímavexti eins og hér er um að (Forseti hringir.) ræða. (Gripið fram í.) En það eru allt atriði sem þingið mun fjalla um í hinni þinglegu meðferð (Forseti hringir.) málsins. Ég treysti því og veit að þingið mun að sjálfsögðu fara vandlega yfir allar þessar staðreyndir (Forseti hringir.) að lokum.