137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:39]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Á íslenska þjóðin að taka á sig skuldbindingar sem ekki eru hennar? Eigum við að borga það sem við eigum ekki að borga? Það eru spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir í dag. Svarið getur samt bara verið á einn veg: Íslenska þjóðin á ekki að borga meira en hún er lagalega skuldbundin til að gera. Hvers vegna í ósköpunum ætti hún að gera annað?

Ef maður veltir fyrir sér hinni lagalegu stöðu, getur það þá staðist að fyrirtæki séu starfrækt víða um heim á ábyrgð íslenska ríkisins án þess að ríkið sjálft hafi nokkuð um það að segja? Nei. Svo er að sjálfsögðu ekki. Íslendingar uppfylltu skyldur sínar og innleiddu tilskipun Evrópusambandsins um að koma á ákveðnu tryggingakerfi. Það voru aldrei gerðar neinar athugasemdir við það.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hvernig núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn með Samfylkinguna í broddi fylkingar hefur haldið á málum. Aldrei frá því að hryðjuverkalögin voru sett hafa íslensk stjórnvöld staðið í lappirnar gagnvart Bretum og Hollendingum. Þau létu meira að segja hjá líða að höfða mál þann 7. desember síðastliðinn þegar málshöfðunarfresturinn vegna hryðjuverkalaganna rann út. (Gripið fram í.)

Hefði það ekki styrkt stöðu okkar að benda á það, og einnig í viðræðunum um Icesave, að líklega værum við ekki lagalega skuldbundin að borga sem þjóð? Það hefur aldrei gerst í samningaviðræðum. Svavar Gestsson, formaður samninganefndarinnar, viðurkenndi það í Morgunblaðinu í dag. Það var ekki valmöguleiki, sagði hann. Sú leið var aldrei rædd.

Því er haldið fram af hæstv. utanríkismálaráðherra að staða okkar versni hugsanlega á alþjóðavísu ef við tökum ekki skuldirnar á okkur. Síðan hvenær hefur íslenska þjóðin hlaupið eftir hugsanlega, mögulega, kannski, ef til vill, jafnvel áliti annarra þjóða á okkar málefnum? Það er fáránlegt að taka jafnstóra ákvörðun byggða á líkum, hvað gæti gerst og hvað ekki. Við verðum að byggja skoðanir okkar á staðreyndum. Nú höfum við meira að segja lögin með okkur. Af hverju látum við ekki reyna á þau? Er það ekki einmitt grundvallarréttarregla hvers vestræns ríkis að það geti leitað réttar síns til að fá skorið úr deilumálum? Þarna er einmitt mergurinn málsins. Við verðum að átta okkur á því að við erum að gefa frá okkur grundvallarréttindi hvers sjálfstæðs ríkis. Ef við látum þvinga okkur til annars erum við í raun að gefa frá okkur fullveldisréttinn. Til hvers var þá barist árið 1944 þegar við urðum sjálfstæð þjóð?

Íslandi hefur alla tíð verið hollast að standa á eigin fótum og láta reyna á sjálfstæðan rétt sinn. Hvað með það þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 200 mílur, eitt stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar? Þá höfðum við meira að segja lögin á móti okkur og alveg örugglega einnig álit annarra þjóða. Við unnum ekki vinsældakosninguna þá. Varð það samt ekki þess virði að berjast fyrir því?

Núna höfum við lögin með okkur. Hvenær hefur það spurst út um Íslendinga að þeir þori ekki að standa á rétti sínum? Það má vel vera að einstaka stjórnmálamönnum sé svo mikið í mun að fara inn í Evrópusambandið að þeir séu reiðubúnir að leggja allt undir. Jafnvel framtíð barnanna okkar.

Hinn 26. febrúar síðastliðinn svaraði utanríkisráðherra fyrirspurn um hvort hann hafi látið kanna lögfræðileg rök fyrir því hvort Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða Icesave-ábyrgðirnar og hver sé þá niðurstaða þeirrar skoðunar. Svarið var á þá leið að gagnaðilar okkar héldu öðru fram og nokkrar álitsgerðir lægju fyrir í þá veru að við værum skuldbundin til að greiða. Þær væru hins vegar trúnaðarmál.

Hvernig stendur á því að nú kemur hæstv. utanríkismálaráðherra hér fram og fullyrðir að þetta hafi allt verið gert opinbert? Við höfum þær upplýsingar í höndum að það hafi kannski aldrei verið leitað neins lögfræðilegs álits. Við gerum skýra kröfu að það verði allt uppi á borðinu varðandi þetta málefni.

Virðulegi forseti. Þetta mál er af þeirri stærðargráðu að ég legg til að við skjótum því til þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Látum þjóðina skera úr um hvort hún ætli að undirgangast þessar skuldbindingar sem við erum ekki lagalega (Forseti hringir.) skuldbundin til þess að taka á okkur. Efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.