137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Hæstv. ráðherrar, hv. þingmenn og kæru landsmenn. Það er verið að skuldbinda þjóðina til að greiða skuld sem hún efndi aldrei til. Það er ranglátt. Þjóðin spyr: Af hverju vilja Bretarnir ekki þetta örugga eignasafn Landsbankans sem þeirra ágæta endurskoðendaskrifstofa metur að verði 95% heimtur af? Af hverju vilja þeir ekki taka áhættu með okkur? Hvað gerist ef við getum ekki borgað skuldina? Hvaða veð hafa Bretar til að tryggja að við borgum? Varla eru orð okkar sem þeir settu á lista meðal hryðjuverkamanna gild ein og sér.

Af hverju þessi asi? Stjórn Gordons Browns riðar til falls og því væri það sennilega skynsamlegast að geyma að undirrita samninga við fólk sem berst um á hæl og hnakka til að fá uppreisn æru á okkar kostnað.

Getur verið að ferlinu sé flýtt til að tryggja að við getum sótt um aðild að ESB á réttum tíma? Það á jú að þrýsta því máli með miklum hraða í gegnum þingið í sumar. Almenningur vonaði að á sumarþingi yrði boðað til aðgerða sem beindust að því hvernig við ætluðum að vinna okkur saman úr þessum öldudal en mér sýnast lausnir þær sem hér hafa verið boðaðar eingöngu snúast um aðild að ESB.

Hann er að verða þjóðinni ansi dýr aðgöngumiðinn að viðræðum við ESB. Því hlýt ég að spyrja mig hvort að þetta sé rétti tíminn til að leggja höfuðáherslu á það mál.

Icesave-skuldbindingin mun lengja kreppuna um minnst sjö ár. Það þýðir einfaldlega að við verðum í kreppuástandi hérlendis til ársins 2024. Það mun verða til þess að þeir sem flytja burt munu aldrei koma heim aftur. Á hverjum degi flytur ein fjölskylda frá Íslandi. Á hverjum degi verða færri til að sjá um gamla fólkið okkar og þá sem geta ekki farið út af heilsufarslegum aðstæðum eða fátækt. Hér munu innviðir velferðarkerfisins molna og erfitt verður að endurreisa það eftir svo langvinna blóðtöku.

Ég vona að hæstvirtir ráðamenn okkar skilji hvað þeir eru að kalla yfir þjóðina með Icesave-samningnum. Ég hef fullan skilning á að þeir tóku við vondu búi frá Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Þó má ekki gleyma því að þrír ráðherrar eru enn við völd frá fyrri stjórn Samfylkingar sem tók fullan þátt í að hylma yfir það hve ástandið var orðið alvarlegt.

Það er óskynsamlegt að lofa því að borga lán sem við getum ekki borgað. Ég get ekki stutt gúmmítékkaábyrgð þessarar ríkisstjórnar varðandi Icesave og AGS. Nú þegar borgum við 5 milljónir á dag í vexti af AGS-láninu. Ég óttast að við munum glata sjálfstæði okkar og auðlindum ef við ábyrgjumst skuldir sem við getum ekki greitt. Það er aldrei ein lausn á vandamálum. Það er hættulegt að hugsa þannig. Bjóðum Bretum lánasafnið trausta. Bjóðum þeim allar eignir sem nást frá bankaræningjunum. Ef þær endurheimtur verða meiri en skuldin nemur þá mega Bretar eiga það sem tákn um góðan vilja okkar. Ef Evrópumenn útiloka okkur úr samfélagi sínu vegna þess að við komum fram af heiðarleika þá er það ef til vill ekki góður félagsskapur til að binda trúss sitt við um aldur og ævi. Það eru til aðrar þjóðir í heiminum en Evrópuþjóðir, hæstvirtu ráðamenn.

Borgarahreyfingin skorar á þingmenn að greiða atkvæði eftir samvisku sinni fremur en flokkslínum þegar samningurinn kemur til afgreiðslu. Við sórum drengskapareið gagnvart þjóðinni en ekki flokkunum sem við tilheyrum. Nú er tími kominn til að við sýnum það í verki. Aldrei fyrr hefur það verið okkur eins mikilvægt að koma okkur úr skotgröfunum og finna leiðir til lausna óháð flokkslínum. Ef til vill er nauðsynlegt að mynda hér þjóðstjórn. Viðfangsefnin eru svo viðamikil að til að sátt náist þurfa allir að geta lagst saman á árarnar. Þá hygg ég að skynsamlegt væri að hlusta á þá erlendu sérfræðinga sem boðist hafa til að aðstoða okkur og viðurkenna að vandamálin sem við erum að glíma við eru okkur ofviða.

Svo skora ég á ríkisstjórnina að leyfa þjóðinni að kjósa um mál sem varða framtíð hennar.