137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Eins og ég nefndi eru í þessu frumvarpi fólgnar mun meiri breytingar en tilskipanir gefa tilefni til og m.a. á ákvæðið um bann við stofnun gagnkvæmra tryggingafélaga sér ekki stoð í þeim tilskipunum eftir því sem ég best veit.

Ég vil taka undir orð hæstv. ráðherra um það að traust og heilbrigt vátryggingaumhverfi er mjög mikilvægt og við hljótum auðvitað að viðurkenna að vátryggingafélögin breyttust á uppgangs- og gróðafylliríistímunum hér í eins konar fjárfestingarfélög sem tóku virkan þátt í atvinnustarfsemi á öllum mögulegum sviðum samfélagsins og breyttust að stórum hluta í fasteignafélög sem m.a. áttu stóra hluti í bönkunum. Svo virðist sem vátryggingafélögin stærstu hafi í raun skipt með sér fjármálamarkaðnum á sinn hátt.

Allir þessir þættir hljóta að koma til umræðu og skoðunar í hv. viðskiptanefnd og ég spyr hæstv. ráðherra hvort mögulegt sé vegna þeirrar kæru sem hann nefndi hér og er vissulega ekki til álitsauka fyrir okkur Íslendinga, að innleiða þær tilskipanir sem um ræðir með nokkuð skjótvirkum hætti en nota haustþingið til þess að fara vandlega yfir smíði nýrrar löggjafar um vátryggingastarfsemi í landinu.