137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:17]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur sérstaklega verið skoðað í ráðuneytinu hvort þess sé einhver kostur að gera þær breytingar á frumvarpinu sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ræðir, þ.e. að taka það sérstaklega út sem snýr að innleiðingu tilskipunarinnar. Var það eindregin niðurstaða að það væri ekki gerlegt, a.m.k. ekki með skömmum fyrirvara.

Hins vegar vil ég varpa fram þeirri hugmynd nú, ef þingmanninum eða öðrum þingmönnum finnst að það þurfi að búa til þrengri ramma, m.a. um fjárfestingar vátryggingafélaga eða einhverja aðra þætti í starfseminni sem þeir vilja festa betur niður svo að vátryggingafélögin verði ekki misnotuð af eigendum sínum eða öðrum aðilum, að hugað verði að því í haust. Þær breytingar sem hér eru lagðar til verði hins vegar lögfestar nú á meðan þessi pressa er á okkur vegna málshöfðunarinnar. Þá ætti að vera hægt að taka þann tíma sem þarf til þess að fara yfir vátryggingalöggjöfina aftur og þar á meðal það sem þingmaðurinn nefndi og er óneitanlega mikið áhyggjuefni, að menn geti t.d. með einhverjum hætti misnotað bótasjóði vátryggingafélaga.

Ég hefði talið að það væri eðlilegra að gera það þá í haust en koma frumvarpinu í gegn nokkurn veginn eins og það er núna þótt auðvitað sé ekki útilokað að hv. nefnd komi með einhverjar breytingar á þessu stigi. Ég ætla auðvitað ekki að leggjast gegn því en ég hefði talið eðlilegra að vinna það með þessum hætti.