137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræddum hér fyrr í dag skýrslu hæstv. fjármálaráðherra um Icesave-reikningana eða það vandamál sem varð til vegna galla í regluverki Evrópusambandsins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið kannað sérstaklega varðandi vátryggingastarfsemi, kannski einkum endurtryggingar, hvort það séu einhverjar veilur í þessu regluverki Evrópusambandsins því að við getum ekki skotið okkur á bak við það alfarið að regluverk þeirra sé í lagi. Ég nefni sérstaklega iðgjaldavarasjóði og annað slíkt, sérstaklega í líftryggingum sem eru til mjög langs tíma, 60–80 ára. Það er mjög mikilvægt að þeir séu rétt reiknaðir og rétt varðir.

Hvernig er fé iðgjaldavarasjóðanna lagt fyrir og hversu hraðar upplýsingar hefur eftirlitið t.d. um breytingar í endurtryggingum? Geta menn tekið yfir mjög mikil viðskipti á mjög stuttum tíma t.d. með því að kaupa heilu „grúppurnar“ af líftryggingum? Hversu hratt fær eftirlitið upplýsingar um slíkt? Getur það fylgst með því jafnóðum þannig að það fari ekki eins og með Icesave-reikningana í Hollandi sem hlóðust upp á einhverjum tveimur, þremur mánuðum?

Ég held að það sé orðið dálítið brýnt að við skoðum regluverk Evrópusambandsins vel og á gagnrýninn hátt. Það er dálítið slæmt að menn skuli vera í pressu frá þessu sama Evrópusambandi við að keyra mál í gegn þegar menn þurfa að efast um regluverkið sjálft.