137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:21]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að greina frá því að þetta frumvarp var upphaflega samið í tíð forvera míns í stóli viðskiptaráðherra þannig að mér er ekki nákvæmlega kunnugt um hvaða athugun fór fram á regluverki Evrópusambandsins á þessu sviði áður en frumvarpið var lagt fram. En ég get að sjálfsögðu grennslast fyrir um það og komið þeim upplýsingum til þingmannsins ef hann óskar þess.

Sömuleiðis hef ég upplýsingar ekki hjá mér hér um það hversu títt Fjármálaeftirlitið fær tilkynningar um breytingar á fjölda tryggðra eða einhverjum slíkum lykilupplýsingum í rekstri vátryggingafélaga en það er alveg sjálfsagt að grennslast fyrir um það og upplýsa þingmanninn um það, óski hann þess.