137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:36]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því að þingnefndir, hvort sem það er hv. viðskiptanefnd eða aðrar nefndir, fari vel yfir mál og hvet hana til að gera það í þessu máli eins og öðrum. Það liggur fyrir hvers vegna það er tímapressa og þingmenn vita jafnmikið um það og ráðuneytið. Ef svo fer að málið fari ekki í gegn á sumarþinginu þá er það bara þannig, þá vitum við hverjar líklegar afleiðingar verða vegna þessa dómsmáls og tökum því.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að málið hefur verið lengi í vinnslu þannig að það er ekki verið að kasta til höndunum og koma með hraðsoðið frumvarp hingað. Nefnd sem skipuð var fyrir tæpum tveimur árum samdi frumvarpið og ég er búinn að mæla fyrir því tvisvar og ef ég man rétt mælti forveri minn fyrir því a.m.k. einu sinni. Frumvarpið hefur fengið mjög mikla umfjöllun bæði í ráðuneytinu og komið til kasta þingsins áður. Það er því ekki eins og verið sé að leggja fram án nokkurs aðdraganda frumvarp sem þingmenn eru beðnir um að koma í gegn í skyndi. Það er einfaldlega ekki þannig, málið hefur verið lengi í vinnslu og hlotið vandaða umfjöllun.

Ef menn treysta því ekki enn að frumvarpið sé orðið nógu gott og vilja taka sér þann tíma sem þarf til að bæta það, gerir þingið það og þá vitum við hver staðan er og tökum málið upp í haust. Ég vil engu að síður hvetja til þess, ef þess er nokkur kostur, að ljúka afgreiðslu málsins á sumarþinginu þótt ég viti auðvitað jafn vel og meðlimir í hv. þingnefnd hversu mörg og brýn mál bíða hennar og það þarf ekkert að útskýra það fyrir mér að viðskiptanefnd hefur mikið að gera. Við treystum því bara að nefndin vinni vel í þessu máli eins og öðrum.