137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vextir og verðtrygging.

62. mál
[17:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn höfum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sem gengur í mjög stuttu máli út á það að hámarkshækkun á vísitölu neysluverðs verði aðeins 4%. Ég hef verið fylgjandi því að við færum vísitöluna aftur, við getum gert það hvort sem er til miðs síðasta árs eða áramótanna 2007/2008 til þess að leiðrétta þá ósanngirni þegar skuldir landsmanna hækkuðu um um það bil 20% við efnahagshrunið og hrun bankanna.

Við höfum keyrt á þá stefnu og lagt hana fram á Alþingi að það verði 20% niðurfelling á lánum landsmanna. Við áttum okkur fyllilega á því að það eru ekki allir sem þurfa á því að halda en teljum samt að það verði með einum eða öðrum hætti að koma til móts við millistéttina, þá sem alla jafna hefðu verið í stakk búnir til að borga af lánunum sínum en geta það ekki í því árferði sem við búum við í augnablikinu. Síðan ætlum við að nota peninginn, vegna þess að við vildum láta þetta ganga jafnt yfir alla — við fundum ekki leið til að skera úr um hverjum ætti að bjarga og hverjum ekki. Ef þeir sem þurfa ekki á því að halda fengju meiri pening til umráða mundu þeir peningar fara beint út í hagkerfið og auka hagvöxtinn. Fyrirtæki gætu þá orðið starfhæf á ný og þyrftu ekki að segja upp jafnmörgum og raun ber vitni.

Þessari tillögu okkar hefur verið hrósað af Hagsmunasamtökum heimilanna sem hafa komið með mjög sambærilegar tillögur. Þessi samtök, sem vinna gríðarlega gott verk, eru okkur sammála um að það þurfi með einum eða öðrum hætti að stíga skref til að gera fólki kleift að ráða við skuldbindingar sínar og missa það ekki í gjaldþrot.

Rætt var á fundi fjárlaganefndar um daginn — vegna þess að boðaður er niðurskurður í öllum fjármunum ríkisins — að grunnur að vísitölunni yrði endurskoðaður með einum eða öðrum hætti. Það er afar ósanngjarnt að það skuli fyrst og fremst bitna á skuldum heimilanna og þær skuli hækka við það eitt að gjald á áfengi og tóbak sé hækkað. Við hljótum sem þjóð að vilja að komast út úr verðtryggingunni með einum eða öðrum hætti. Ég tel að það sé afar mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að menn hafi kannski ekki alveg áttað sig á því hvað þeir voru að gera árið 2002 þegar þeir settu krónuna á flot. Þá má í rauninni segja að henni hafi verið kippt úr sambandi við efnahagslíf þjóðarinnar. Krónan endurspeglar efnahagskerfi okkar á hverjum tíma og það hlýtur að vera þannig sem við viljum að það verði í framtíðinni. Við sjáum það strax á lánum erlendis, eins og t.d. í Noregi sem er ekki í Evrópusambandinu að þar eru vextir miklu lægri og fólk finnur strax fyrir hækkun eða breytingu á verðlagi. Heimilin fara þá strax að draga saman seglin og bregðast við en við sem þjóð höfum hingað til ýtt vandanum á undan okkur. Það ræddum við fyrr í dag varðandi Icesave-samningana, enn á ný ætlum við að velta vandanum yfir á komandi kynslóðir.

Eins og ég sagði áðan er í frumvarpinu lagt til að hámarkshækkun á vísitölu neysluverðs á ári verði 4%. Þar má líka segja að ábyrgðinni af því að halda verðbólgunni í skefjum og áhættunni af lántökunni sé skipt á milli lánveitanda og lántakanda. Lántakendur hafa þurft að bera alla ábyrgðina hingað til og eins og kom fram í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur er ekki rétt að ríkið skuli sjálft vera stór hagsmunaaðili í þessu máli. Þess vegna er mikilvægt að það taki frumkvæði að því að draga úr notkun verðtryggingar í íslensku samfélagi. Því leggjum við til að ríkissjóður og stofnanir í eigu ríkisins, þar á meðal Íbúðalánasjóður og Seðlabanki Íslands, gefi ekki út verðtryggð ríkisskuldabréf nema þá í algerum undantekningartilfellum þar sem þeim væri það heimilt. Þá yrði að gefa út opinberlega af hverju það er gert og forsendur fyrir útgáfunni. Við leggjum líka til að við lögin bætist bráðabirgðaákvæði sem feli í sér að skipuð verði nefnd til að leita enn frekari leiða til að afnema varanlega verðtryggingu sem fyrst.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir rakti áðan hversu margir þingmenn úr hvaða flokki sem er hafa lagt fram tillögur sambærilegar okkar tillögu. Ef ég man rétt hefur núverandi forseti Alþingis gefið það út að í meiri mæli verði afgreidd einstök þingmannamál vegna þess að það er með endemum hversu fá þingmannamál fá brautargengi á hinu háa Alþingi og eru í raun svæfð í nefnd. Ég mundi vilja sjá ríkisstjórnina og aðra afgreiða þetta mál sem ég tel vera skref í rétta átt í þeim efnahagsvandræðum sem nú blasa við.

Því miður verð ég samt að segja það, eins og þingmenn meiri hlutans hafa gert varðandi tillögu okkar um 20% leiðréttinguna, að hún hefur í raun verið slegin út af borðinu algerlega gagnrýnislaust án þess að stjórnarliðar komi með nokkrar tillögur í staðinn. Ég vona að það verði ekki reyndin með þessa ágætu tillögu og beini því til hæstv. forseta að hún beiti sér fyrir því að þetta mál fari í nefnd og komi svo fyrir þingið þannig að við getum greitt atkvæði um hana.