137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vextir og verðtrygging.

62. mál
[18:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera athugasemdir við orðfæri hv. þm. Péturs H. Blöndals þar sem hann sagði að með frumvarpinu væri verið að stela frá sparifjáreigendum og stela frá lífeyrissjóðunum. Staðan á Íslandi í dag er sú að hér eru það háir vextir að þeir sem eiga innlán í banka eða í lífeyrissjóði græða á því. Það er staðreynd. Viljum við ekki fara í það að lækka stýrivexti? Þeir sem eiga innlán og eiga í lífeyrissjóði munu þá svo sannarlega missa spón úr aski sínum.

Við skulum ekki gleyma því að þegar neyðarlögin voru sett ákváðum við sem þjóð að ábyrgjast allar innstæður umfram skyldu. Það er ekki eins og stigið hafi verið á fótinn á þeim sem eiga peninga í banka. Við framsóknarmenn erum að hugsa um hinn hópinn. Og þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal komi fram og segi að íslenska þjóðin hafi verið óskynsöm og ekki kunnað að spara o.s.frv. er það staðreynd í dag að við erum að missa fjölda fólks í gjaldþrot.

Ef það er þannig að hv. þingmaður vill með einum eða öðrum hætti afnema verðtrygginguna eins og mér heyrðist hann vera sammála okkur um, er þetta þá ekki skref í rétta átt? Við erum ekki að skerða innlán í lífeyrissjóðum núna. Þeir munu sannarlega fá minni ávöxtun, en við erum ekki að taka frá þessu fólki. Er ekki kominn tími til að við hugsum um þá sem minna mega sín, þá sem skulda? Það er stór hluti þjóðarinnar. Afnemum verðtrygginguna með þessu litla þrepi og myndum svo hér hagkerfi (Forseti hringir.) sem endurspeglar raunverulegt hagkerfi íslensku þjóðarinnar.