137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka nafna mínum, hv. 7. þm. Norðaust., fyrir góða fyrirspurn og jafnframt er ég þakklátur hv. þingmanni fyrir það að telja mig hæfastan til að svara þessari spurningu. Ég mun reyna að standa undir því. (Gripið fram í: … Framsóknarflokksins.) Ég tel að það sem helst megi læra af einkavæðingu bankanna á þessum tíma sé að sú nálgun að það sé einn stór kjölfestufjárfestir sé líklega ekki æskileg, þ.e. að dreift eignarhald sé mun líklegra til að bankarnir skili sem mestu til samfélagsins og starfi sem best fyrir sjálfa sig um leið.

En hvað varðar framtíðareinkavæðingu bankanna sem nú eru aftur orðnir ríkisbankar tel ég æskilegast að reyna að koma þeim í hendur kröfuhafa bankanna með einhverjum hætti. Bent hefur verið á að það sé alls ekki víst að þeir hafi áhuga á því að yfirtaka bankana og fara í bankarekstur en ég held að það væri mjög æskilegt ef hægt væri að koma málum í það horf til að opna á tengsl við útlönd í gegnum þessar bankastofnanir og til að kröfuhafarnir hefðu hag af því að rekstur bankanna gengi sem best hérna. Sú leið að reyna að selja þessa banka til erlendra banka, einhverra annarra en kröfuhafanna, gæti reynst mjög erfið þótt ekki væri nema vegna þess að á sínum tíma þegar bankarnir voru einkavæddir var talað, að mér skilst, við einhverja 30 erlenda banka til að reyna að fá þá til að koma þar að málum. Áhuginn var lítill og var það þó þegar ástandið var bara prýðisgott á Íslandi. Menn geta því rétt ímyndað sér ef nú væri send út tilkynning um að íslenskir bankar væru til sölu að litið yrði á það sem grín frekar en alvöru.

Líklegasta leiðin til árangurs er sú að reyna að fá kröfuhafana, sem í raun má segja að eigi bankana, til að taka við þeim og rekstri þeirra.