137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að beina máli mínu til hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, formanns viðskiptanefndar, þó að ég persónugeri ekki þetta mál við þann ágæta hv. þingmann. En ég vil segja í byrjun að ég held að það sé mikilvægt að formaður þingflokks Vinstri grænna upplýsi okkur um hversu stór meiri hluti þingflokks Vinstri grænna ætlar að styðja það mál sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði um.

Hvað sem því líður ætla ég að velta einu máli upp sem er eins stórt mál og það getur orðið og það varðar upplýsingagjöf þingmanna. Eins og allir vita hefur það verið mikil þrautaganga að fá upplýsingar um þau stærstu mál sem þetta þing fjallar um. Hér vísa ég sérstaklega til endurreisnar bankanna. Við höfum reynt að fá aðila sem upplýsa okkur um stöðu mála til að halda fund í hv. viðskiptanefnd. Það hefur verið mikil þrautaganga, virðulegi forseti, en steininn tók úr í morgun. Þar komu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og upplýstu okkur um að þeir hefðu gert samninga sem gerðu það að verkum að þeir teldu að það væri ekki nokkur einasta leið fyrir þá að upplýsa hv. þingmenn almennt um stöðuna varðandi endurreisn bankanna. Við fáum engar upplýsingar um hvaða aðferðafræði verður notuð af endurskoðunarfyrirtækjum og ráðgjafarfyrirtækjum til að meta eignir bankanna eða um neitt sem snýr almennt að þessu.

Hvernig eiga hv. þingmenn að taka ákvarðanir sem eru einar þær stærstu sem þingmenn þjóðarinnar hafa tekið án þess að hafa upplýsingar? Það liggur alveg hreint og klárt fyrir að við munum ekki fá upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta snýst um trúverðugleika þingsins (Forseti hringir.) og ég spyr hv. þingmann: Hvernig eigum við að taka afstöðu til þessara gríðarlega stóru mála ef við fáum ekki til þess upplýsingar?