137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, hefur nú tengt saman Icesave-málið og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu þar sem hann sagði á blaðamannafundi nýlega að Finnar styðji sérhverja þá ákvörðun sem greiðir götu Íslands að Evrópusambandsaðild og átti þá við Icesave-skuldbindingarnar. Ég beini því þeirri spurningu til hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur hvort hún sé sammála þessu stöðumati utanríkisráðherra Finna. Það er ljóst að Vinstri grænir eru komnir í heljarmikinn leiðangur ásamt Samfylkingunni til að ganga til viðræðna við Evrópusambandið þvert á það sem þessi flokkur talaði um fyrir einum og hálfum mánuði síðan.

Þessi sami flokkur er líka í ríkisstjórn sem ætlar að leggja fyrir Alþingi Íslendinga Icesave-skuldbindingar sem er hrikalegur samningur. Flokkur sem fyrir einum og hálfum mánuði síðan talaði gegn því að undir slíkt samkomulag yrði ritað. Ég spyr: Á hvaða vegferð er Vinstri hreyfingin – grænt framboð? Er hún gersamlega búin að gleyma helstu stefnumálum sínum sem hún talaði fyrir fyrir um 50 dögum síðan? Eru stólarnir í ríkisstjórninni þessum flokki svona mikilvægir? Er flokkurinn búinn að hringsnúa helstu stefnumálum sínum, þ.e. að fara að skuldbinda íslenska þjóð um gríðarlega háar upphæðir? Að öllu óbreyttu verða vaxtagjöld íslenska ríkisins fyrsta ár þessarar skuldbindingar 36 milljarðar króna. Það er meira en við setjum í rekstur Landspítalans þar sem þúsundir hjúkrunarfræðinga og lækna og annars starfsfólks vinna, meira en sjálfur Landspítalinn á einu ári? Hver er stefna Vinstri grænna í þessum málum? Ég held að sjálfur Ragnar Reykás verði að litlum manni við hliðina á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði (Gripið fram í.) þegar kemur að því að snúa eigin stefnu á hvolf og það er eðlilegt að við spyrjum hv. þingmenn Vinstri grænna hvað orðið hafi um kosningastefnu þess flokks.