137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég var eins og fleiri stödd á þessum merka fundi í morgun og ég get alveg tekið undir það sem aðrir hafa sagt að þetta var mjög undarleg upplifun svo ekki sé sterkara að orði kveðið.

Eitt sem kom fram þar hjá starfsmanni Fjármálaeftirlitsins var að Fjármálaeftirlitið gæti ekki gefið þessar upplýsingar vegna þess að þetta snerist um traust og trúverðugleika Fjármálaeftirlitsins. Þeir gætu ekki brotið samninga sem þeir hefðu gert og þess vegna ekki upplýst löggjafarvaldið um þær skýrslur eða látið þær af hendi eins og nefndin óskaði eftir.

Ég spyr hér, líkt og ég spurði í nefndinni: Hvað með traust og trúverðugleika hv. Alþingis? Ég held að við getum öll óskað okkur að það væru aðrar aðstæður í samfélaginu í dag og ég held að við öll sem erum hér viljum gera allt sem við getum til að auka traust almennings á þessari ágætu virtu stofnun. Þess vegna voru það mjög dapurleg tíðindi sem við fengum á þessum fundi að til þess að fá þessar upplýsingar þyrftum við að mæta í ræðustól á Alþingi, væntanlega með potta og pönnur.

Ég vil taka undir hvatningu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til hv. nefndarformanns, Álfheiðar Ingadóttur, og stjórnarmeirihlutans að ganga vel eftir því og ég hvet okkur hér að ganga vel eftir því að við fáum allar þær upplýsingar sem við þurfum til þess að taka ekki bara erfiðar og nauðsynlegar ákvarðanir, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram sagði, heldur réttar ákvarðanir. Og við tökum ekki réttar ákvarðanir nema við höfum allar þær upplýsingar sem mögulegar eru til að geta (Forseti hringir.) lagt mat á þessa mjög svo erfiðu hluti. Þess vegna tek ég undir það sem hér hefur komið fram að við verðum að krefjast þess að (Forseti hringir.) þessar upplýsingar verði látnar af hendi.