137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Undanfarin ár eða áratugi hafa sparisjóðirnir flestir skilað neikvæðum hagnaði af rekstri, þ.e. rekstrarafgangur hefur verið neikvæður. Þeir hafa hins vegar haldið uppi jákvæðum afgangi með því að þau hlutabréf sem þeir áttu, aðallega í Kaupþingi og Existu, hafa hækkað umtalsvert og þannig sýndu þeir hagnað ár eftir ár þrátt fyrir tap af rekstri. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé eðlilegt að Fjármálaeftirlitið heimili sparisjóðum að fjárfesta svo mikið í áhættusömum eignum. Svo kemur í ljós að þegar þær eignir hrynja hrynja sparisjóðirnir, líka það göfuga fé sem er geymt í þessum sjóðum sem enginn á.

Svo er spurningin um það sem ég hef margoft bent á og hef þess vegna haft miklar efasemdir um þetta form: Ef hæstv. ráðherra ætti bílinn minn en ég mætti ætíð keyra hann, alla tíð, og nota hann að öllu leyti, hver er þá munurinn á því að ég eigi hann sjálfur? Þetta er einmitt sem gerist með það fé sem enginn á en einhver stýrir. Það eru völdin yfir fjármagninu sem gera sparisjóðina eftirsóknarverða og ekki síður eftir þá breytingu sem hér er verið að gera. Það verður enn áhugaverðara að stýra þessu fé þannig að ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugleitt hvernig fari með þetta. Mér finnst þessar breytingar eiginlega færa sparisjóðinn nær hlutafé, ef eitthvað er.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra líka um er hvort hann hafi hugleitt að takmarka fjárfestingar sparisjóðanna í t.d. öðrum fjarskyldum rekstri sem ekki virðist hafa verið nein takmörkun á hingað til og ekki heldur héðan í frá.