137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:09]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur svolítið á óvart að hæstv. samgönguráðherra, sem er maður framtíðarinnar, skuli í allri þeirri umræðu sem hefur farið fram hingað til í dag, hafa verið á neikvæðum nótum. Hann er kolfastur í fortíðinni. Það er eins og Færeyingar segja, það er allt kjaftsvart í kringum hann. Það er blindaþoka. Það er margt sem má finna að í stjórn landsins undanfarin ár, ekkert síður hjá sjálfstæðismönnum en öðrum, samfylkingarmönnum, framsóknarmönnum og öðrum sem hafa tekið þátt í stjórn landsins. Það þýðir ekkert að einblína alltaf á það að kenna einhverjum einum um, finna einhvern einn blóraböggul. Það er bara ekki það sem blasir við í dag. Það sem blasir við í dag er að horfa til þeirra verka sem eru fram undan og þeirra vandamála sem eru fram undan. Ég vona að hæstv. samgönguráðherra komist úr því hjólfari sem hann er kominn í með allt kjaftsvart í kringum sig. Það hæfir ekki hæstv. ráðherra og fer honum illa. Hann er baráttumaður og verkglaður að öllu jöfnu, Siglfirðingur. Það eru hlunnindi.