137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hér og flutt er af þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég man í febrúarmánuði þegar þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram svipaðar hugmyndir, reyndar í mun fleiri liðum, urðum við þess heiðurs aðnjótandi að hæstv. fjármálaráðherra tók þátt í þeirri umræðu. Það var ágætt innlegg og eins gerði hæstv. utanríkisráðherra sér sérstaka leið niður í þing að kvöldi til til að ræða um efnahagstillögur okkar þá.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu var vel tekið í þessar tillögur að mestu leyti og það veldur mér því miklum áhyggjum að heyra sama tón hjá hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn gagnvart þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér. Þegar við skoðum þá þingsályktun sem framsóknarmenn lögðu fram fyrir nokkrum mánuðum í 18 liðum kemur upp úr dúrnum að nær ekkert af því sem kveðið er á um í þeirri þingsályktun hefur verið framkvæmt þrátt fyrir mikinn fagurgala og þá sérstaklega hjá hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni.

Ég spurði hæstv. ráðherra í andsvari fyrr í dag hvernig stæði á þessu og fékk það svar að verið væri að vinna að hlutunum. Enn er verið að vinna að því að ljúka við stofnun á nýju bönkunum sem margsinnis hefur frestast. Ekki hefur verið veitt heimild handa lífeyrissjóðum til að eiga gjaldeyrisviðskipti þótt þær hugmyndir séu enn uppi og maður les um í blöðum að séu til viðræðu í Karphúsinu. Það er ekki búið að gera drög að fjárlögum til ársins 2012 og þar af leiðandi er ekki búið að móta trúverðuga efnahagsstefnu. Það hefur leitt það af sér að við búum enn við eina hæstu stýrivexti í heimi, 12% stýrivexti. Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að undir árslok verði stýrivextir komnir niður í 2–3% er ekki margt sem bendir til þess að ríkisstjórninni og Seðlabankanum takist það ætlunarverk sitt frekar en svo margt annað þegar kemur að efnahagsmálum.

Þessir tveir flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, mega þó eiga að þeir hafa lagt hér fram heildarpakka, tillögur í efnahagsmálum. En þegar ráðherrum í ríkisstjórninni er tíðrætt um samráð og samvinnu er ekkert hlustað á þær tillögur og verkin tala einungis í þeim efnum. Það er ekki nóg að taka vel í þessar þingsályktunartillögur rétt eins og tillögur okkar framsóknarmanna í febrúarmánuði, það hefur einfaldlega ekkert verið farið eftir þeim. Mér finnst hól ríkisstjórnarinnar við tillögum okkar framsóknarmanna ekki boða gott. Þingmenn hafi útbúið ásamt færustu sérfræðingum þjóðarinnar ályktun um tillögur í efnahagsmálum og síðan er ekkert farið eftir þeim.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra tóku sér einungis nokkrar klukkustundir í að kynna sér afskriftaleiðina sem við settum fram í febrúarmánuði, áður en þau slógu þær hugmyndir út af borðinu sem er gamaldags pólitík, skotgrafahernaður. Að mati sumra eru hugmyndir frá öðrum flokkum fyrir fram ómögulegar.

Við heyrum reyndar í umræðunni núna að hæstv. forsætisráðherra talar um að leiðrétta þurfi skuldir heimilanna og jafnvel fyrirtækjanna. Við getum velt fyrir okkur hvernig staðan væri ef við hefðum brugðist hratt við og þorað að taka ákvarðanir í febrúar eða mars, komið til móts við skuldug heimili og fyrirtæki. Værum við þá í eins miklum erfiðleikum í dag og raun ber vitni?

Við töluðum fyrir því á sínum tíma að mikilvægt væri að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Mánuðir og vikur hafa liðið. Mörghundruð fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota. Þúsundir einstaklinga hafa misst vinnuna og því miður er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar ekki enn komin fram. Hún er í vinnslu eins og á undangengnum vikum og mánuðum og ég veit ekki hvenær við megum vænta þess að hún líti dagsins ljós. En á meðan það liggur ekki fyrir er alveg ljóst að stýrivextir Seðlabankans munu ekki lækka. Það má því færa óyggjandi rök fyrir því að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar kosti íslenskt atvinnulíf og heimili fleiri milljarða í hverri viku í ljósi þess að við búum við eina hæstu stýrivexti í heimi. En forsendan fyrir því að lækka þá er sú að ríkisstjórnin komi með almennilegar tillögur í efnahagsmálum.

Mér finnst, líkt og hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, ekki hægt að ræða um efnahagsmál í þessari umræðu án þess að ræða það sem yfir okkur vofir, svokallaðar Icesave-skuldbindingar. Og eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson minntist á í ræðu sinni um þær gríðarlegu skuldbindingar sem ríkisstjórnarflokkarnir virðast ætla að steypa yfir íslenska þjóð höfum við fengið mjög misvísandi upplýsingar um stærðir í því samhengi.

Á fundi í utanríkismálanefnd í morgun sem hv. þingmaður sat kom í ljós að verði skrifað undir þetta samkomulag undirgöngumst við 732.720 milljarða kr., sem sagt tæpa 733 milljarða kr. sem Íslendingar bera ábyrgð á í framhaldinu. Á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun kom í ljós verði þessir samningar samþykktir og verði skrifað undir þá, munu vextirnir reiknast frá og með síðustu áramótum. Þvílík samningatækni sem þar er vegna þess að þá liggja einhverjir inni á reikningum erlendis sem hafa verið frystir, reyndar án vaxta, sem við hefðum getað borgað strax inn á höfuðstólinn og lækkað skuldir. En sú samninganefnd sem við sendum út í heim hefur skrifað upp á það og kemur heim með þann samning að við skulum borga vexti frá og með síðustu áramótum.

Það er gjörsamlega óásættanlegt og það sér hver heilvita maður að þeir samningar sem verið er að leggja á okkur eru með öllu óásættanlegir. Vaxtakostnaðurinn af þessum okurvöxtum, 5,55%, eru 41 milljarður kr. fyrsta árið. Ef við setjum þetta í samhengi — þetta er svo stór upphæð og það er erfitt að gera sér grein fyrir henni — væri fyrir 42 milljarða kr. hægt að reka Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hólaskóla, Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík í tæp þrjú ár, bara fyrir vaxtakostnaðinn fyrsta árið. Fyrir þessa 42 milljarða væri hægt að reka Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahús í eitt ár þar sem vinna fleiri þúsund manns og taka á móti fleiri þúsund sjúklingum. (Gripið fram í.)

Maður veltir því fyrir sér hvaða áhrif samkomulag sem þetta muni hafa á íslensku krónuna og við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvort það eignasafn sem er á bak við þessar skuldbindingar sé traust. Hér vitna ég í skrif í vefriti sem heitir eFrettir.is, með leyfi forseta:

„Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Efrétta, eru 50% af lánasafni Landsbankans svokölluð ABL-lán (Asset Based loans) sem voru veitt yfirveðsettum fyrirtækjum. Í því safni eru lánasöfn galdþrota fyrirtækja eins og Woolworths upp á 500 milljón punda sem gerir um 100 milljarða króna.“

Ég og fleiri í efnahags- og skattanefnd höfum kallað eftir því að við fáum að sjá þetta eignasafn og hvaða skuldbindingar við undirgöngumst. Þetta er allt voðalega mikið leyndarmál og ég velti því fyrir mér í ljósi þess að margir stjórnarþingmenn hafa á undangengnum dögum sagt að þeir muni styðja þetta samkomulag án þess að vita í raun og veru hvað liggur þarna að baki. Ég tel það vera algjört ábyrgðarleysi og óábyrgt að stjórnmálamenn sem ekki hafa fengið aðgang að þessum grunnupplýsingum skuli fyrir fram vera búnir að lýsa yfir stuðningi við undirskrift að Icesave-skuldbindingunum.

Hér er um háalvarlegt mál að ræða og þrátt fyrir þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna og tillöguna sem við framsóknarmenn lögðum fram í febrúarmánuði held ég að íslensk þjóð verði mjög skuldug á næstu árum ef þessar skuldbindingar verða samþykktar. Við þurfum að vega mjög mikið að heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu, eitthvað sem við höfum ekki efni á. Með þessari undirskrift er verið að draga Íslendinga marga áratugi aftur í tímann til fátæktar og við munum, fáum við tilstyrk til þess frá einhverjum stjórnarliðum (Forseti hringir.) á þingi, reyna að koma í veg fyrir þá ósvinnu.

Ég vil þakka hv. þingmönnum (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokks fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu.