137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Dagarnir líða hratt hjá ykkur í Norðvesturkjördæmi, þegar hv. þingmaður segir að nú, 11. júní, séu komnir 110, 120 dagar síðan við vorum kosin á þing, síðan 25. apríl, það er býsna hraustlega talið. (GBS: Ég miðaði við minnihlutastjórnina.) Já, en 100 daga áætlunin er lögð fyrir þessa ríkisstjórn og við skulum vona að hæstv. ríkisstjórn standi við þau fyrirheit sem þar eru gefin. Ég held að við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson séum í sjálfu sér að rífast dálítið um keisarans skegg. Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði eftir þessum tölvupósti „munu ekki duga“ og það er munur á því. Hv. þingmaður sagði einnig: Það þarf mismunandi lausnir fyrir mismunandi atvinnugreinar.

Það er nákvæmlega það sem við höfum staðið fyrir í stjórnarmeirihlutanum, að grípa til mismunandi lausna fyrir mismunandi atvinnugreinar vegna mismunandi stöðu einstaklinga í stað þess að reyna að leysa það með einhverjum almennum einföldum úrræðum sem munu duga einhverjum hluta af hópnum, en, og ég ætla ekkert að gera lítið úr því, mun skilja eftir það stóran hóp að það þarf að vinna til viðbótar. Kannski er þá búið að nota þann pening sem við þurfum til að eiga í úrræði fyrir þann hóp sem þarf sérstakar aðgerðir. Um þetta er ágreiningurinn, hann hefur ekkert verið miklu meiri en þetta. Allir eru sammála um að vinna þurfi með heimilunum, það þarf að vinna í þeirra þágu, það þarf að gæta hagsmuna barnanna, við þurfum að tryggja að fólk hafi afkomu og geti haldið húsnæði, en okkur greinir örlítið á um leiðir. Þarna eru komnar tvær tillögur, niðurfellingarleiðin og núna þetta með að fresta greiðslum fyrstu þrjú árin, aðferðir sem ríkisstjórnin hefur fengið stuðning við hjá stjórnarandstöðuflokkunum varðandi greiðsluaðlögun, greiðslujöfnun o.s.frv. Við erum bara að deila um hve mikið þurfi til viðbótar og hvernig best sé að grípa til þeirra úrræða. Auðvitað eigum við að halda þeirri umræðu áfram enda hafa verið gefið fyrirheit um það og viðurkennt (Forseti hringir.) að þessu sé ekki lokið, það þurfi meira til.