137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

20. mál
[16:49]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ánægju hv. 1. flutningsmanns þessa frumvarps, Sivjar Friðleifsdóttur, með að þetta mál skuli vera komið inn í þingið með þverpólitískum stuðningi. Það tel ég mjög mikilvægt. Hv. þingmaður fór vel yfir eðli málsins. Ég er einn af flutningsmönnum málsins og taldi og vonaði reyndar að málið yrði samþykkt á síðasta þingi en svo varð ekki þó að það væri komið út úr nefnd og inn í þingið með miklum stuðningi. (SF: En vændið fór samt.) Já, en vændið fór samt, sagði hv. þingmaður og það var ánægjuefni.

Á síðasta þingi var sú sem hér stendur félags- og tryggingamálaráðherra og lagði fram skýrslu um aðgerðaáætlun gegn mansali. Hluti af þeirri aðgerðaáætlun var einmitt að lagabreyting eins og hér er lögð fram yrði samþykkt á Alþingi. Það var niðurstaða mín þegar sú aðgerðaáætlun var samþykkt í ríkisstjórninni og lögð fram á þinginu í skýrsluformi, að ég taldi eðlilegt að þingið sjálft samþykkti breytingartillögu sem þessa enda lá þetta þingmál þá fyrir í þinginu. Ég hafði vonað að a.m.k. tvær aðgerðir inni í aðgerðaáætluninni yrðu að lögum á síðasta þingi en það varð aðeins önnur þeirra, sem var sænska leiðin í sambandi við vændi. En sú tillaga varð ekki að lögum þannig að ég legg ríka áherslu á að þetta mál verði afgreitt fljótt og vel því það er mjög mikilvægt og hluti af mun stærra máli, sem er baráttan gegn mansali.

Vegna þess að hér er gert að umtalsefni að þverpólitískur stuðningur sé við þetta mál þá langar mig til að nefna að félagsmálaráðherrar í gegnum tíðina hafa haft verulegar áhyggjur af tengslum nektardans við vændi og mansal. Árið 2002 lögðu Páll Pétursson, sem þá var félagsmálaráðherra, og Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, fram á fundi Norðurlandaráðs í norrænu ráðherranefndinni yfirlýsingu þar sem þau í sameiningu lýstu yfir áhyggjum sínum vegna þessara tengsla og bentu á, með leyfi forseta, að:

„Ísland hefur verið notað sem viðkomuland í flutningi kvenna frá Evrópu til Bandaríkjanna og fjöldi erlendra kvenna kemur ár hvert til Íslands til þess að vinna sem nektardansmeyjar á næturklúbbum. Viðvörunarbjöllur hringdu þegar niðurstöður rannsóknar, sem gerð var að frumkvæði dómsmálaráðherra, leiddu í ljós tengsl milli nektardansstaða í Reykjavík og vændis. Athygli var beint að því að sumar hinna erlendu kvenna sem vinna sem nektardansmeyjar geti verið neyddar til að stunda vændi.“

Þetta er tilvitnun í yfirlýsingu þessara tveggja fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands árið 2002. Menn hafa haft áhyggjur af þessu máli lengi. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á baráttu hinna ýmsu kvennasamtaka fyrir því að afnema þessa undanþágu enda virðist það vera ljóst að vilji löggjafans hafi þegar þessi lög voru sett staðið til þess að það yrði ekki undanþáguheimild heldur að það yrði fortakslaust bann og að undanþáguheimildin yrði ekki meginregla eins og hún virðist hafa orðið í reyndinni.

Það er ánægjuefni að þetta skuli vera komið hér og ég treysti því að þetta mál fari fljótt og vel í gegnum nefnd og geti orðið að lögum jafnvel fyrir haustið.

Svo vil ég í lokin, virðulegi forseti, taka undir orð hv. 1. flutningsmanns, Sivjar Friðleifsdóttur, um opnunartíma skemmtistaða. Þetta er mál sem þarf að taka á. Það er til vansa hvernig ástandið er í höfuðborginni allar nætur. Þetta er nokkuð sem við ættum að leggja af, að hafa opna skemmtistaði allar nætur og takmarka opnunartímann og hafa Norðurlöndin sem fyrirmynd hvað það varðar.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en hvet til þess að þetta mál verði afgreitt fljótt og vel á þinginu.