137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

niðurfelling persónulegra ábyrgða starfsmanna Kaupþings.

[15:17]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Þetta fór ekki fram hjá mér frekar en hv. þingmanni. Því miður virðist það vera rétt lögfræðileg niðurstaða að ekki sé hægt að snúa við þessum gjörningi. Það breytir því ekki að hann var í alla staði óeðlilegur og óæskilegur og það hlýtur að koma til skoðunar að draga þá til ábyrgðar sem stóðu fyrir honum hvort heldur er siðferðilega eða lagalega, en auðvitað stendur það ekki upp á framkvæmdarvaldið heldur dómsvaldið. Við þurfum hins vegar að læra af þessu og það stendur kannski upp á framkvæmdarvaldið og jafnvel löggjafarvaldið að setja reglur sem koma í veg fyrir að gjörningar sem þessir muni tíðkast í hinu nýja bankakerfi sem við erum að byggja upp.

Þess utan er að vísu einnig spurning um skattskyldu vegna þessa gjörnings. Það er flókið mál og heyrir náttúrlega ekki undir viðskiptaráðuneytið heldur fjármálaráðuneytið, en það kann að vera að þeir sem fengu þessar skuldir niðurfelldar verði fyrir einhverri ágjöf vegna skattskyldu án þess að ég vilji neitt fullyrða um það hér og nú.