137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

vaxtalækkanir og peningastefnunefnd.

[15:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra tekur af skarið og lætur okkur vita að þessum upplýsingum verði komið til okkar í vikunni vegna þess að ég held að það sé algjörlega ljóst að við getum ekki beðið lengur eftir því að taka til hendinni í þessum málum og það ríkir mikil óvissa í samfélaginu vegna þess. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra aftur því að ef ég skildi hann rétt hefur peningastefnunefnd ekkert frekari upplýsingar en við höfum hér: Er það rétt skilið hjá mér að það sé í raun og veru ekki frekari vaxtalækkana að vænta milli vaxtaákvörðunardaga og var það þá oftúlkun hjá hæstv. forsætisráðherra hér í seinustu viku þegar hún lét að því liggja (Forseti hringir.) að svo mætti verða?