137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framfærslugrunnur LÍN.

[15:33]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra um framfærslugrunn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hvort hann verði leiðréttur að einhverju leyti í samræmi við verðlagsþróun fyrir næsta skólaár.

Á heimasíðu lánasjóðsins sést að ársframfærsla einstæðrar móður eða einstæðs foreldris með eitt barn er nú um 1.312 þús. á ári eða um 140 þús. á mánuði miðað við níu mánaða framfærslu. Við þurfum ekkert að fjölyrða um það hversu lág þessi framfærsla er ekki síst á tímum atvinnuleysis þegar tækifærum til góðrar sumarvinnu til tekjuaukningar á ársgrundvelli hefur fækkað mikið.

Námslánakerfi okkar er í grunninn góð hugmyndafræði þótt á því séu gallar sem vonandi verða smám saman leiðréttir eins og nú þegar er hafist handa við, eins og t.d. með frumvarpi um niðurfellingu ábyrgðarmanna.

Það er afar mikilvægt fyrir námsmenn þessa lands að hafa þennan lánasjóð, ekki síst fyrir þá sem búa ekki í næsta nágrenni við háskóla og verða að flytja að heiman til að geta stundað nám á háskólastigi. En það þarf að vera raunhæfur möguleiki að lifa á þessum lánum, ekki síst núna þegar ekki er hlaupið í vinnu til þess að auka tekjurnar en raunar eiga einstæðir foreldrar alltaf erfitt með slíkt.

Mér finnst nauðsynlegt að leita allra leiða til að leiðrétta framfærslugrunninn og skoða hann í ljósi grunnatvinnuleysisbóta þannig að sá samanburður verði ekki til þess að letja fólk til að fara í nám af því að það geti fengið meira út úr kerfinu með því að vera á atvinnuleysisbótum en á námslánum.

Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra: Mun framfærslugrunnur námslána frá Lánasjóði íslenskra námsmanna hækka á næsta skólaári með einhvers konar viðmið í atvinnuleysisbótum?