137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur staðið núna síðdegis og það er svo sem að vonum. Ég hef verið þátttakandi í sjávarútvegsumræðu í þinginu alllengi og mig rekur ekki minni til þess að sjávarútvegsumræða hafi hafist fyrir minna en nokkra klukkutíma og það af miklu minna tilefni en því sem við ræðum í dag. Það skyldi því engan undra að þessi umræða taki nokkurn tíma. Ég hef fylgst mjög gjörla með umræðunni í dag og vil segja að hún hefur verið mestan part mjög málefnaleg og þær gagnrýnisraddir sem hafa komið fram á þetta frumvarp hafa verið mjög efnislegar og hafa eingöngu lotið að því að menn hafa bæði verið að reyna að benda á hugsanlegar leiðir til þess að gera þetta frumvarp betur úr garði en einnig að spyrja grundvallarspurninga um þá leið sem í raun og veru er verið að fara með þessu frumvarpi.

Það er auðvitað hlutur sem við verðum að gera þegar við erum að velta fyrir okkur sjávarútvegsumræðunni, rétt eins og ég hef stundum verið að segja, mér finnst það stundum gleymast í þessari umræðu að við erum að tala um atvinnuveg. Við erum að tala um atvinnuveg sem á að standa undir lífskjörunum í nánustu framtíð og við erum að tala um atvinnuveg sem skiptir öllu máli fyrir okkur vegna stærðar hans og umfangs, hefur gert það og mun gera það í vaxandi mæli. Þess vegna er mjög eðlilegt að spurt sé grundvallarspurninga eins og þeirra sem hv. þm. Illugi Gunnarsson gerði í sinni ágætu ræðu og báðum sínum ágætu ræðum áðan, þar sem hann var að velta fyrir sér þeim grundvallarspurningum sem við þurfum auðvitað að spyrja okkur í þessu sambandi.

Auðvitað má segja sem svo að strandveiði eða banndagakerfið sem hérna er verið að leiða í lög í tilraunaskyni núna í eitt ár, að því sagt er, muni ekki út af fyrir sig ráða miklu eða stóru. Í heildarumfangi sjávarútvegsins erum við ekkert að tala um þær miklu aflaheimildir né heldur er þetta kannski ýkjastórt sem hlutfall af þeirri heildarfjárfestingu sem er í sjávarútveginum. Það breytir ekki því að prinsippumræðuna þurfum við að taka vegna þess að allt þetta er hluti af þeirri stóru mynd sem sjávarútvegurinn er, og þegar við erum að velta því fyrir okkur hvernig við getum búið hann þannig úr garði að hann standi undir væntingum okkar um góð lífskjör þurfum við einfaldlega að spyrja þessara spurninga.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kallaði eftir því og sagði að hún saknaði þess í umræðunni að þeir sem hefðu haft uppi gagnrýni á þetta mál hefðu ekki komið með margar tillögur til úrbóta. Það er að vísu ekki rétt. Við höfum varpað fram ýmsum hlutum, bæði með almennum hætti en einnig með meiri og afmarkaðri hætti þar sem við höfum verið að reyna að leggja á ráðin með það hvernig hægt væri að breyta þessu frumvarpi.

Vandinn í þessu máli er hins vegar sá að frumvarpið er eiginlega lagt fram í nánast öfugri röð. Þetta eru, eins og ég orðaði það áðan, veiðar í tilraunaglasi. Það er enginn sannfæringarkraftur á bak við þessa hugmynd. Hugsunin er sú að það væri nú í lagi að setja löppina aðeins ofan í vatnið og vita hvort maður þyldi hitann eða kuldann og sjá svo til eftir tvo og hálfan mánuð hvernig til hefði tekist. Ef vel hefði tekist til héldu menn áfram, ef illa hefði tekist til mundu menn hætta við. Þetta finnst mér ekki vera aðferð við það að nálgast lagasetningu. Lagasetningu nálgast menn með þeim hætti að það er sest niður og reynt að gera sér grein fyrir verkefninu og síðan velta menn fyrir sér lausnunum á úrlausnarefninu og leita eftir sem flestum sjónarmiðum og leggja síðan af stað með lagasetninguna. Mér finnst þess vegna að þetta sé gert, eins og ég orðaði það, í öfugri röð. Núna er á vissan hátt kastað fram hugmynd sem allir sjá í sjálfu sér að er ekki mjög vel útfærð og síðan á að láta reynsluna skera úr um það í sumar hvort þetta hafi tekist vel eða illa.

Ég vakti athygli á því m.a. í andsvari áðan að auðvitað er það þannig að þeir sem fara af stað í þennan atvinnurekstur eru nýir aðilar. Ekki gleyma því að yfirlýstur tilgangur er einmitt sá að kalla inn í atvinnugreinina aðila sem ekki eru að gera út núna, það er markmiðið með þessu frumvarpi, annað markmiðið með frumvarpinu. Þeir aðilar sem eru í þeim sporum gera það ekki nema fara í fjárfestingu og í þessu tilviki felst fjárfestingin annars vegar í bátum og hins vegar í veiðarfærum og útbúnaði. Það kallar auðvitað á fjárfestingu og það má kannski segja sem svo að Alþingi geti þá sagt eftir tveggja og hálfs mánaðar reynslutímabil: Við vöruðum ykkur við, við sögðum við ykkur að þetta yrði tilraunastarfsemi og þið verðið þá bara að bera ábyrgð á því ef illa fer og við teljum ekki ástæðu til þess að halda þessu áfram. Þetta er auðvitað ekki góð aðferð við að byggja upp atvinnustarfsemi. Sá sem vill hasla sér völl í atvinnustarfsemi af einhverju viti þarf að gera það með ákveðinni fullvissu og öryggi, öðruvísi er ekki við því að búast að hann nái miklum árangri.

Eitt af því sem við gagnrýndum í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar eru hinar byggðalegu afleiðingar. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að það er margt sem hægt er að benda á að hefur farið úrskeiðis í byggðunum sem menn geta rakið til aflamarkskerfisins eða þeirrar staðreyndar að við erum að fiska úr takmarkaðri auðlind. Það veldur því auðvitað að aðgangurinn takmarkast með einhverjum hætti. Framsalið hefur líka haft þessar afleiðingar og við höfum síðan verið að reyna að bregðast við með ýmsu móti, eins og ég hef margoft gert grein fyrir. Hér um bil alltaf þegar við höfum verið að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu undanfarin ár hafa menn einmitt verið að reyna að koma auga á leiðir til þess að bregðast við fyrir hönd byggðanna og opna leiðir fyrir nýja aðila. Það er enginn vafi á því að þegar við horfum fimm eða tíu ár til baka sjáum við að það hefur orðið gríðarlega mikil endurnýjun í sjávarútvegi. Þúsund manna hópur sem fjárfesti í sjávarútvegi í gegnum smábátakerfið er til marks um það. Þannig mætti auðvitað áfram telja.

Það sem við erum hér að benda á er sú staðreynd sem auðvitað blasir við að hluti af þeim veiðirétti sem við ætlum að færa til þessara nýju dagabáta er tekinn með þeim hætti að það er ætlunin að taka hluta af byggðakvótanum, eins og við höfum þráfaldlega verið að benda á, og það vill bara þannig til að þeir sem hafa notið byggðakvótans eru veikustu sjávarbyggðirnar. Við vitum út af fyrir sig ekki hvernig þessi strandveiði mun þróast þannig að það er a.m.k. — svo að maður reyni að vera mjög sanngjarn — fullkomin óvissa um hvaða afleiðingar þetta hefur. En það bendir allt til þess, eins og margoft hefur komið fram, m.a. í máli hagsmunaaðila, umsagnaraðila sem komu til okkar, að þetta muni hafa neikvæð áhrif í einhverjum mæli fyrir veikustu sjávarbyggðirnar og þær sjávarbyggðir sem liggja verst við fyrirkomulagi sem þessu.

Þess vegna var það þannig að í 1. umr. málsins vakti ég athygli á því að þessi svæðaskipting, þessi stóru svæði, þessi fjögur svæði fyrir landið, eru ekki líkleg til þess að skila byggðalegum árangri. Sá sem er að veiða yst á tilteknu svæði hefur ekki áhrif, jafnvel þó að hann landi inni á svæðinu, hann hefur ekki áhrif byggðarlega á svæðið sem liggur fjærst. Þess vegna vorum við að velta því fyrir okkur í nefndinni og víðar og í 1. umr., hvort ekki væri eðlilegt að skoða þessi svæði upp á nýtt, stokka þau upp á nýtt.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála þegar við lesum álit meiri hlutans að þessi sjónarmið hafa a.m.k. að einhverju leyti komist til skila til meiri hlutans, sjónarmið minni hluti nefndarinnar sem við röktum og einnig mjög margir hagsmunaaðilar, umsagnaraðilar, sem komu á fund nefndarinnar. Þess vegna leggur nefndin til að þessi mál verði stokkuð upp.

Það sem ég sakna í þessari umræðu er að ég tel að meiri hluti nefndarinnar hefði að sjálfsögðu átt að leggja fram miklu meiri leiðsögn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um hvernig þessum málum ætti að hátta. Mér finnst það vera eins og að senda inn opinn tékka, óútfylltan víxil þar sem við vitum ekki, löggjafinn sem er að setja þessi lög, hverjar afleiðingarnar eru. Útfærsla þessara mála sem núna er lögð algjörlega opin inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun hafa byggðalegar afleiðingar. Ég veit alveg og veit það manna best að í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu vinnur ákaflega samviskusamt fólk sem vill vel og reynir vel. Það lýtur hins vegar auðvitað pólitísku valdboði og þess vegna er eðlilegt að löggjafinn segi skoðun sína á því þó að ekki sé nákvæmlega ljóst hvernig til að mynda þessi svæðaskipting á að vera.

Ég vakti t.d. athygli á því í fyrri ræðu minni í dag hvort hægt væri að styðjast við hugtök eins og atvinnusvæði eða þjónustusvæði. Þetta eru hugtök sem eru mjög vel þekkt í byggðaumræðunni þar sem landinu er skipt niður í atvinnusvæði þar sem menn reyna að átta sig á því hvar atvinnulegir hagsmunir geti legið saman á einstökum svæðum, hversu langt menn sækja vinnu milli byggðarlaga, hversu langt menn sækja þjónustu milli byggðarlaga o.s.frv. Þarna hefði auðvitað verið mjög eðlilegt að leita til bæði atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni og Byggðastofnunar, til aðila sem hvorir tveggja hafa sérfræðilega þekkingu á þessum efnum en það var ekki gert. Þvert á móti, eins og ég vakti athygli á í ræðu minni og í andsvari, hafði Byggðastofnun einn dag til þess að velta þessu máli fyrir sér eftir að Íslandspóstur hafði skilað af sér bréfinu frá Alþingi með beiðni um það að veita umsögn um málið.

Í öðru lagi var með mjög skilmerkilegum hætti, ekki síst af hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, vakin athygli á því að sú meðaflaregla sem frumvarpið hafði að geyma var dæmd til að mistakast og gat haft mjög alvarlegar afleiðingar. Þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til á þessu fyrirkomulagi svarar í rauninni ekki þessari gagnrýni. Þetta var ekki ný gagnrýni, hún var ekkert að koma upp núna í þessari umræðu. Á þetta var bent strax í 1. umr. málsins þar sem vakin var athygli á því að þetta fyrirkomulag væri dæmt til að mistakast. Ég kallaði eftir því í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að við fengjum upplýsingar frá Fiskistofu um tegundaskiptingu við handfæraveiðar undanfarin þrjú ár og ég rakti það aðeins í ræðu minni fyrr í dag hvernig sú tegundaskipting er. Hún er dálítið misjöfn milli ára, sem m.a. getur helgast af því, eins og ég rakti, að handfærasóknin hafi verið meiri á einhverjum svæðum þar sem meiri ufsagengd hefur verið o.s.frv.

Landssamband smábátaeigenda lagði fram hugmyndir um það, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi, að í stað þess að vera með þessa prósentureglu varðandi meðaflann, ufsaaflann, yrði einfaldlega talað um þorskígildi í þessu sambandi og síðan mundi það þá ráðast af tegundaskiptingunni hvernig þetta þróaðist í veiðunum. Allt saman væru þetta mjög eðlilegir hlutir sem væri hægt að taka tillit til, en ég ítreka að ég tel að það væri langsamlega skynsamlegast til þess að ná meiri sátt um málið og til þess að ná skynsamlegri niðurstöðu, að doka við þetta fiskveiðiárið sem núna er brátt á enda. Það er alveg rétt sem hv. starfandi formaður nefndarinnar hefur sagt að það er auðvitað skammur tími til stefnu. Ég vek þó athygli á að það eru innan við þrjár vikur síðan málið kom fyrst fyrir Alþingi. Við höfum verið að vinna sleitulaust á mörgum aukafundum til þess að reyna að ljúka meðferðinni um málið en vitaskuld væri skynsamlegast núna að doka við, úthluta byggðakvótanum eins og margoft hefur komið fram og reyna að vinna að betri undirbúningi málsins.

Það sem hér er í raun og veru verið að gera varðandi þennan hluta frumvarpsins, þ.e. bráðabirgðaákvæði I, er að fara sóknarleið. Það eru alveg lögmæt sjónarmið á bak við það. Við þekkjum það hins vegar að þegar sóknarkerfi er sett á laggirnar þurfa menn samt sem áður að takmarka aðganginn með einhverjum hætti. Menn geta að vísu losnað við það með því að auka aflaheimildirnar ef þörf krefur. Það gerðum við í gamla banndagakerfinu, settum bara kíkinn fyrir blinda augað og jukum aflaheimildirnar en samt sem áður þurftu menn smám saman að fara að gefa eftir og fækka dögunum.

Það er ekki mjög líklegt að sú leið verði farin. Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tilkynnt það í bréfi til Alþjóðahafrannsóknaráðsins að næstu fimm árin verði fylgt mjög stífri aflareglu upp á 20% af veiðistofnum. Við skulum láta þá ákvörðun liggja á milli hluta en það liggur þá alla vega fyrir að það verður fylgt mjög stífri aflareglu næstu fimm árin og því ákaflega ólíklegt að farið verði í að auka þessar heimildir nema þá að ganga mjög á fiskveiðirétt annarra sem eru í þessu kerfi.

Í öðru lagi er auðvitað sú leið til, sem við beittum í gamla banndagakerfinu, að takmarka aðganginn, kerfinu var lokað. Að lokum var það þannig að menn komust ekkert inn í banndagakerfið, það varð reyndar fljótlega þannig, það var því sá hópur sem var í banndagakerfinu sem fékk að fiska á tilteknum dögum sem voru ákveðnir af sjávarútvegsráðherra hverju sinni í upphafi fiskveiðiárs.

Í þriðja lagi var sú leið, sem var í rauninni leið ráðuneytisins og löggjafans, að fækka þessum dögum þegar sóknarmátturinn jókst. Ef þetta kerfi tekst vel og menn sjá mikla hagsmuni í þessu, góðan afrakstur, mikla veiðimöguleika, mikla tekjumöguleika, þá hlýtur það að verða þannig og það hljóta a.m.k. vonir þeirra sem standa að málinu að standa til, að það verði ásókn inn í þetta kerfi. Þá er það augljóst mál að það mun auka sóknarmáttinn. Við þekkjum það til að mynda þar sem menn hafa beitt sóknarkerfi þá er innbyggt í það að menn reikna með því að sóknargetan sé u.þ.b. 2–5% sem aukist á hverju ári bara með þekkingu á miðum, þekkingu á veiðarfærum, framförum o.s.frv. Það leiðir í sjálfu sér til fækkunar á dögum. Öllu þessu þurfa menn væntanlega að velta fyrir sér þegar búið er að fá af þessu reynslu. Síðan er það það sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði: Vandamálið verður ekki fyrsta árið, vandamálið kemur eftir fyrsta árið.

Þetta eru allt saman eðlileg sjónarmið sem mér finnst eðlilegt að koma hér á framfæri og árétta. Ég tel að þessi umræða hafi verið málefnaleg og gagnleg (Forseti hringir.) en ég geri mér grein fyrir því að það er vilji meiri hluta Alþingis að afgreiða þetta mál og það verður auðvitað gert. Áður en til (Forseti hringir.) þess kemur endanlega þarf málið auðvitað að koma fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að nýju.