137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[20:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæðagreiðslu um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það hefur fengið allítarlega umfjöllun og við 1. umr. málsins lýstum við sjálfstæðismenn yfir stuðningi við að þetta mál fengi brautargengi og samþykki Alþingis. Það er mjög mikilvægt að ljúka því þar sem fyrir liggur afstaða bænda til þessara breytinga.

Hér er í raun verið að lögfesta þá ákvörðun sem Alþingi tók fyrir áramótin með því að skerða vísitölubætur á búvörusamningi í ljósi þeirra alvarlegu efnahagsaðstæðna sem þá voru uppi og eru enn í dag. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að um þetta mál skyldi að lokum takast samkomulag milli bænda og ríkisvaldsins í samræmi við það sem lagt var af stað með samningaviðræðum sem hófust í minni tíð í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. (Utanrrh.: Þegar þið voruð í ríkisstjórninni.) Þegar við vorum í ríkisstjórninni, rétt, hæstv. utanríkisráðherra.

Um leið er þetta frumvarp eins konar staðfesting á því að þeir sem gagnrýndu þessi mál fyrir áramótin eru nú að viðurkenna að þeir höfðu á röngu að standa og betra er seint en aldrei. (Gripið fram í.)