137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[20:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um ákaflega veikburða tilraunir meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar til þess að reyna að stagbæta illa unnið frumvarp sem engin leið er að gera breytingar á svo vel sé með þeim hætti sem hér er verið að leggja til. Þess vegna er ekki hægt að styðja þessar breytingartillögur þó að vissulega megi segja sem svo að þær horfi að einhverju leyti til bóta.

Heildarákvæði frumvarpsins hvað þetta áhrærir er hins vegar með þeim hætti að það er alveg ljóst að það skapar fullkomna óvissu um þetta útgerðarform. Það mun ekki ná þeim árangri sem að er stefnt og þess vegna munum við sjálfstæðismenn greiða atkvæði gegn þessu ákvæði í heild sinni þó að vissulega séu þessar lítils háttar, veikburða lagfæringar heldur til bóta.